Íslenski boltinn

Óvíst að nýjasti FH-ingurinn spili nokkurn tímann fyrir félagið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gomes í leik með Dönum á ÓL í Ríó árið 2016.
Gomes í leik með Dönum á ÓL í Ríó árið 2016. vísir/getty
Eins og greint var frá fyrr í dag þá er FH búið að gera tímabundinn samning við varnarmanninn stóra og sterka, Eddi Gomes. Það þarf þó ekki að fara svo að hann spili fyrir félagið.

Gomes er nefnilega meiddur og alls óvíst hvenær hann verður búinn að jafna sig af meiðslunum.

FH ákvað að gera tímabundinn samning við leikmanninn. Ef hann jafnar sig fyrir maí og nær að sýna að hann sé nógu góður þá mun hann fá lengri samning samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

Sé hann aftur á móti enn meiddur í maí þá mun hann þurfa að leita á önnur mið. Það er því algjör óvissa um hvort hann spili með Fimleikafélaginu eður ei.

FH missti Kassim DOumbia og Bergsvein Ólafsson frá félaginu í vetur og tíðindi af fleiri varnarmönnum í Krikann eru því líkleg á næstunni. FH er í æfingaferð erlendis núna þar sem erlendir leikmenn eru í skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×