Íslenski boltinn

Birkir Már: Erum að leita í Noregi og Svíþjóð

Anton Ingi Leifsson skrifar

Birkir Már Sævarsson, bakvörður Vals og íslenska landsliðsins, er ekki búinn að gefa upp vonina um að komast út til Skandinavíu á láni í rúman mánuð áður en Pepsi-deildin hefst í lok apríl.

Birkir meiddist á öxl undir lok tímans hjá Hammarby, en hefur nú náð sér af þeim. Þegar hann samdi við Val var greint frá því að það væri möguleiki á að hann myndi fara á láni út og það er enn möguleiki á því.

„Það varð aðeins erfiðara þegar meiðslin voru svona lengi. Ég hefði getað komist út í janúar til Englands eða Danmerkur. Það var bæði í boði,” sagði Birkir Már í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Vegna þess að meiðslin voru í svona langan tíma og ég var ekki klár fyrr en um miðjan febrúar þá voru gluggarnir lokaðir þar. Liðin voru búin að finna leikmenn og það datt upp fyrir.”

Birkir Már er þó ekki búinn að gefa upp vonina um að komast út í smá deildarkeppnisfótbolta áður en íslenska deildin hefst í lok apríl.

„Við erum að leita í Noregi og Svíþjóð ef einhvern vantar hægri bakvörð fyrsta mánuðinn eða fyrsta eina og hálfan mánuðinn vegna meiðsla þá er ég opin fyrir því,” sagði Birkir um það og bætti við:

„Það væri betra fyrir mig persónulega að spila deildarleiki á aðeins betra leveli en hér heima en eins og levelið er á æfingum hjá Val og leikmannahópurinn það góður að þá hef ég engar áhyggjur af því að það hafi áhrif á mig.”

Hann spilaði sinn fyrsta mótsleik fyrir Val í Lengjubikarnum gegn Fram á dögunum og var þetta fyrsti mótsleikur hans fyrir Val í um tíu ár.

„Ég hef aldrei verið jafn spenntur fyrir undirbúningsleik. Það var frábært að komast aftur í bolta eftir þrjá til fjóra mánuði á hliðarlínunni. Mér líst mjög vel á þetta. Það er ekkert svo mikill munur á því þar sem ég hef verið í Skandinavíu og á Valsliðinu,” sagði Birkir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.