Viðskipti erlent

Segir Bandaríkin óttast samkeppni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Richard Yu, forstjóri Huawei.
Richard Yu, forstjóri Huawei. Vísir/AFP
Bandarískir stjórnmálamenn og leyniþjónustustofnanir hafa undanfarið horft grunsemdaraugum til kínverska snjallsímarisans Huawei og sagt fyrirtækið njósna um eigendur símanna fyrir kínversk yfirvöld. Meðal annarra hafa forstöðumenn leyniþjónustunnar CIA, alríkislögreglunnar FBI og þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA varað við þessu.

„Þeir eru að reyna að gera þetta póli­tískt og vilja halda okkur úti af því við erum of sterk samkeppni. Þeir hafa áhyggjur af okkur, við erum of sterk,“ sagði Richard Yu, forstjóri Huawei, við BBC í gær.

Yu sagði af og frá að Huawei hefði nokkur sérstök tengsl við kínverska ríkið eða kínverska leyniþjónustu. Fyrirtækið væri einkarekið og viðvörun Bandaríkjamannanna væri einungis pólitísks eðlis.

Þá sagði Yu enn fremur að fyrirtækið stækkaði á hverju ári. Innan fimm ára yrði það ráðandi afl á heimsmarkaði og myndi brjóta sér leið inn á Bandaríkjamarkað. „Við gætum vel orðið stærst í heiminum, við erum ekki svo langt frá því,“ sagði Yu en í fyrra var markaðshlutdeild Huawei tíu prósent á heimsmarkaði samanborið við 23 prósenta hlutdeild Samsung og 15 prósent Apple.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×