Fótbolti

Heimsótti Messi og þeir fóru saman yfir Íslandsleikinn og HM-plönin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki með Barcelona um síðustu helgi.
Lionel Messi fagnar marki með Barcelona um síðustu helgi. Vísir/Getty
Flestir Íslendingar eru orðnir mjög spenntir fyrir fyrsta leik íslenska fótboltalandsliðsins í úrslitakeppni HM sem verður á móti Lionel Messi og félögum í Argentínu 16. júní næstkomandi. Forseti argentínska sambandsins er líka orðinn mjög spenntur.

Claudio Tapia, forseti argentínska sambandins, mætti til Barcelona í þessari viku og heimsótti landsliðsfyrirliðann Lionel Messi. Messi bauð Tapia heim til sína og þar fóru þeir saman yfir Íslandsleikinn og öll HM-plönin.

Argentínumenn komust alla leið í úrslitaleikinn fyrir fjórum árum síðan en töpuðu þá í framlengdum úrslitaleik á móti Þýskalandi. Þeir urðu síðast heimsmeistarar 1986 en töpuðu úrslitaleiknum líka árið 1990.

Claudio Tapia lét heiminn vita af fundinum með því að birta mynd af þeim félögum á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.





Undirbúningur Argentínska landsliðsins fer í gegnum Barcelona því argentínska landsliðið mun eyða átta dögum í Katalóníu, frá 1. til 8. júní, áður en liðið flýgur áfram til Rússlands.

Liðið mun væntanlega spilað vináttulandsleik við landslið Katalóníu á þessari viku sinni í Barcelona.

Claudio Tapia hitti einnig Josep Maria Bartomeu, forseta Barcelona, í ferð sinni yfir Atlantshafið.

Tapia hefur væntanlega reynt að pressa á það að Lionel Messi fái meiri hvíld á lokakafla tímabilsins en það er mikilvægt fyrir argentínska landsliðið að Messi mæti frískur inn á HM í sumar.

Lionel Messi hefur skorað 22 mörk og gefið 12 stoðsendingar í 25 leikjum í spænsku deildinni en þar er Barcelona með sjö stiga forskot á Atletico Madrid. Vinni Barcelona Atletico Madrid á sunndaginn þá ætti titilinn að vera svo gott sem tryggður.

Það ætti að gefa Barcelona fínt tækifæri til að hvíla Messi í síðustu deildarleikjum tímabilsins en þeir þurfa á honum að halda í hinum keppnunum eins og Meisataradeildinni þar sem liðið gerði 1-1 jafntefli við Chelsea í fyrri leik 16 liða úrslita Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×