Innlent

Tveir í gæsluvarðhaldi vegna gruns um innbrot í Garðabæ

Birgir Olgeirsson skrifar
Mennirnir voru handteknir í gærmorgun, grunaðir um innbrot í heimahús í Garðabæ.
Mennirnir voru handteknir í gærmorgun, grunaðir um innbrot í heimahús í Garðabæ. Vísir
Tveir karlar voru í gærkvöld í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaðir í einnar viku gæsluvarðhald, eða til 6. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir voru handteknir í gærmorgun, grunaðir um innbrot í heimahús í Garðabæ.

Töluvert hefur verið fjallað um innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði.

Vísir sagði frá því fyrr í febrúar að fjörutíu og átta innbrot inn á heimili hefðu átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu frá 17. desember síðastliðnum.

Mörg þeirra höfðu það sammerkt að innbrotsþjófarnir virtust beita sömu aðferð við að komast inn í húsinu og sækja þar á sama staði, eða inn í svefnherbergi í leit að skartgripum, peningum og verðmætum smáhlutum.

Lögreglan á Vesturlandi greindi frá því á mánudag að tvö innbrot hefðu verið tilkynnt til embættisins um liðna helgi. Sagði lögreglan að innbrotin hefðu verið vel skipulögð þar sem þjófarnir komust inn um glugga og leituðu beint í svefnherbergi eftir skartgripum, peningum og verðmætum smáhlutum.

Þessi innbrotahrina hefur vakið mikla athygli og hefur til að mynda sveitarfélagið Garðabær brugðist við því með því að undirrita samkomulag við Neyðarlínuna og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um uppsetningu öryggismyndavéla í bænum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×