Erlent

Fyrrverandi kosningastjóri Trump neitar sök

Kjartan Kjartansson skrifar
Manafort vann fyrir Viktor Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem er bandamaður stjórnvalda í Kreml.
Manafort vann fyrir Viktor Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem er bandamaður stjórnvalda í Kreml. Vísir/AFP
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trump, neitaði sök þegar nýjar ákærur voru lagðar fram gegn honum í dag. Réttarhöld yfir honum hefjast 17. september. Fréttir hafa borist af því að ákærur gegn viðskiptafélaga hans hafi verið felldar niður eftir að hann gerði samkomulag við saksóknara.

Ákærurnar gegn Manafort eru tvær en þær varða meðal annars samsæri um peningaþvætti, skil á röngum skattframtölum og brot á lögum um málafylgjumenn erlendra ríkja, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Manafort og Rick Gates, aðstoðarkosningastjóri Trump og viðskiptafélagi Manafort til fjölda ára, voru þeir fyrstu sem voru ákærðir í rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016.

Gates játaði á sig sök að hluta í síðustu viku og gerði samkomulag við saksóknara um að veita þeim upplýsingar. Greint hefur verið frá því að ákærur gegn honum hafi verið felldar niður. Hann hafði verið sakaður um sambærileg brot og Manafort. Gates játaði meðal annars að hafa logið að rannsakendum um fund Manafort með þingmanni og málafylgjumanni árið 2013.

Manafort var kosningastjóri Trump þangað til í ágúst 2016. Þá komu fram ásakanir um að hann hefði þegið milljónir frá stjórnmálaflokki Viktors Janúkovitsj, forseta Úkraínu, sem var hliðhollur rússneskum stjórnvöldum.


Tengdar fréttir

Starfsmaður framboðs Trump játar sök

Rick Gates gæti veitt rannsakendum upplýsingar um það sem gekk á innan forsetaframboðs Donalds Trump fyrir kosningarnar árið 2016. Hann hefur gert samkomulag við saksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×