Lífið

Þjóðverjahatrið og risafallbyssan

Stefán Pálsson skrifar
Aðdáendur Jules Verne hafa bent á Auðævi hefðarfrúarinnar sem spásögn um bæði risafallbyssur og eiturgashernað fyrri heimsstyrjaldarinnar sem og uppgang alræðisstefna á fjórða áratugnum.
Aðdáendur Jules Verne hafa bent á Auðævi hefðarfrúarinnar sem spásögn um bæði risafallbyssur og eiturgashernað fyrri heimsstyrjaldarinnar sem og uppgang alræðisstefna á fjórða áratugnum.
Árið 1871 lauk skammvinnu stríði Prússa og Frakka með fullnaðarsigri þeirra fyrrnefndu. Fransk-prússneska stríðið reyndist afdrifaríkt á mörgum sviðum. Í Frakklandi hrökklaðist Napóleon 3. frá völdum en þess í stað var lýðveldi komið á fót. Sigurinn stuðlaði jafnframt að sameiningu Þýskalands í eitt ríki og varð franska héraðið Alsace-Lorraine hluti hins nýja Þýskalands.

Þótt við tæki rúmlega fjögurra áratuga tímabil friðar í Evrópu, var ýmsum fræjum fyrri heimsstyrjaldarinnar sáð með niðurstöðum styrjaldarinnar. Til varð nýtt og öflugt stórveldi, Þýskaland, með ríkan metnað til frekari áhrifa á alþjóðavettvangi.

Meira máli skipti þó að sigur Prússa mátti augljóslega skýra með tæknilegum yfirburðum þeirra. Þjóðverjar voru framarlega í iðnbyltingunni, bjuggu yfir öflugu kerfi járnbrautarlesta, járn- og stáliðnaður þeirra var öflugur og þýskar vopnaverksmiðjur framleiddu stærri og öflugari fallbyssur en áður höfðu sést.

Af þessu drógu stórveldi álfunnar rökrétta ályktun: næsta stórstyrjöld myndi ekki vinnast á því einu að hafa slyngustu hershöfðingjana og flesta menn undir vopnum, heldur með tækni og hergögnum. Afleiðingin varð vígbúnaðarkapphlaup sem lauk með hildarleik fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Í Frakklandi risti ósigurinn djúp sár í þjóðarsálina. Niðurlægingin var Frökkum þungbær og leiddi af sér hatur í garð Þjóðverja. Í byrjun nítjándu aldar höfðu ósigrar fyrir Frökkum á vígvellinum orðið til þess að efla samþýska þjóðernisvitund, þar sem þýskir rithöfundar og fræðimenn sleiktu sárin með því að rökstyðja að Þjóðverjar hefðu í það minnsta andlega og menningarlega yfirburði gagnvart nágrönnunum handan Rínar. Nú snerist taflið við og andans menn í Frakklandi fundu sig knúna til að sýna fram á siðferðislega yfirburði sinnar þjóðar andspænis hinum menningarsnauðu Húnum. Í þeim efnum lét hinn þjóðernissinnaði franski rithöfundur Jules Verne ekki sitt eftir liggja.

Áður hefur verið fjallað um Verne á þessum vettvangi, enda einhver áhrifamesti höfundur allra tíma á sviði vísindaskáldskapar. Verne var óhemjuafkastamikill í ritstörfum sínum og þótt eftir hann liggi fjölmargar heimsfrægar skáldsögur, sem þýddar hafa verið á fjölda tungumála og ratað á hvíta tjaldið, þó eru enn fleiri verk eftir hann sem fallið hafa í gleymskunnar dá eða náð lítilli útbreiðslu utan heimalandsins. Dæmi um slíka bók er „Les Cinq cents millions de la Bégum“ frá árinu 1879.

Ólíkir frændur

Les Cinq cents millions de la Bégum hefur ekki verið gefin út á íslensku. Titilinn mætti ef til vill þýða sem „Auðævi hefðarfrúarinnar“, en orðið „le Bégum“ mun vera indverskt tignarheiti yfir múslimakonur af háum stéttum. Upphaf sögunnar er einmitt á þá leið að frönsk ekkja indversks höfðingja deyr og skilur eftir sig gríðarleg auðævi. Við tekur flókin leit að erfingjum, uns lögmönnum tekst að hafa uppi á tveimur fjarskyldum frændum hefðarfrúarinnar. Annar reynist vera franskur læknir, dr. Sarassin að nafni, en hinn þýskur efnafræðingur, prófessor Schultze.

Þrátt fyrir frændsemina hefðu mennirnir tveir vart getað verið ólíkari. Dr. Sarassin var mannvinur sem hafði þungar áhyggjur af óheilnæmum aðstæðum í stórborgum samtímans, sem væru gróðrarstía sjúkdóma með mengun sinni og bakteríum. Sá þýski var hins vegar hrokagikkur sem sannfærður var um yfirburði þýska kynstofnsins. Hann ól með sér drauma um smíði öflugra vopna, sem leiða myndu til heimsyfirráða hinnar saxnesku herraþjóðar. Velktust fáir í vafa um að fyrirmynd persónunnar væri þýski iðnjöfurinn og stálframleiðandinn Alfred Krupp, en fallbyssur hans voru öðru fremur taldar hafa tryggt stríðsgæfu Prússa á undangengnum árum.

Með hjálp auðæva ríku frænkunnar fengu frændurnir færi á að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd. Þótt undarlegt kunni að virðast, duttu þeir báðir niður á sömu hugmynd: að leita á náðir Bandaríkjastjórnar og fá úthlutað landskika til að stofna sín eigin borgríki. Festu þeir kaup á landsvæðum skammt hvor frá öðrum í ríkinu Oregon og hófust þegar handa við að byggja upp samfélög eftir sínu höfði.

Dr. Sarassin skapaði borg, Ville-France, þar sem heilsa og lífsgæði íbúanna voru í öndvegi. Stjórnskipulagið líktist helst konungsbundnu þingræði ýmissa Evrópuríkja, þar sem stofnandinn sat á friðarstóli og vakti yfir velferð borgaranna. Annað var upp á teningnum í Stálborginni eða Stahlstadt, þar sem prófessor Schultze ríkti sem einræðisherra.

Prófessorinn grimmi hélt öllum þráðum valdsins í höndum sér, en borg hans var byggð upp á þann hátt að utan um innsta kjarna hennar voru fjölmargir múrar sem hver um sig héldu úti þeim sem neðar voru settir í virðingarstiganum. Voru hörð viðurlög við því að gægjast inn á forboðin svæði og raunar var ströngum refsingum beitt við minnstu yfirsjónir. Lítið var hirt um heilsufar íbúa Stálborgar, sem var undirlögð af stálvinnslum og verksmiðjum sem seldu vopn um víða veröld.

Hetja bókarinnar er ungur og hjartahreinn piltur, Marcel Bruckmann. Þrátt fyrir þýskt nafnið er Bruckmann einarður franskur þjóðernissinni, en fæddur í Alsace-Lorraine og talar því reiprennandi þýsku. Hann grunar að prófessor Schultze hafi eitthvað illt á prjónunum og afræður því að gerast njósnari í Stálborginni, þar sem hann kemst skjótt til æðstu metorða.

Grunurinn reynist á rökum reistur. Auk þess að stórauðgast á alþjóðlegri vopnasölu hyggur prófessor Schultze á þýsk heimsyfirráð og tortímingu nágranna sinna í Ville-France. Á meðan fyrri skúrkar í verkum Jules Verne höfðu allir átt sínar málsbætur og yfirleitt unnið ódæði sín í góðri trú, er prófessor Schultze hreinræktað illmenni. Hann er fullur af þjóðernishroka og sleggjudómar hans um aðrar þjóðir eru slíkir að persónan virðist fáránleg. En þótt höfundurinn hæðist að þessum fordómum prófessorsins grípur hann sjálfur til einfaldra staðalmynda. Þannig matast Þjóðverjarnir í Stálborg ekki á öðru en súrkáli og bjór.



Nýr tónn

Hin neikvæða mynd sem dregin er upp af Þjóðverjum í sögunni er frávik frá því sem verið hafði í verkum Verne. Vissulega höfðu flestar aðalsöguhetjur höfundarins verið hugprúðir Frakkar, en þar mátti þó finna persónur af ýmsum þjóðernum. Í Leyndardómum Snæfellsjökuls höfðu aðalsöguhetjurnar til að mynda verið tveir Þjóðverjar. Nú var annað upp á teningnum. Þjóðverjarnir í sögunni eru allir drambsöm flón og ofstopamenn. Liggur beint við að skýra þessa viðhorfsbreytingu með fransk-prússneska stríðinu.

Það var ekki bara viðmót höfundarins í garð einstakra þjóða sem hafði tekið stakkaskiptum í þessu verki. Í sögunni kemur einnig fram mun bölsýnni afstaða til tækninnar og þeirra ógna sem henni gætu fylgt en verið hafði í fyrri verkum. Prófessor Schultze hefur látið smíða risafallbyssu sem skotið gæti alla leið til nágrannaborgarinnar. Skotfæri þessarar vítisvélar voru heldur engar venjulegar fallbyssukúlur, heldur nokkurs konar efnavopn. Áttu þau að leysa úr læðingi gufur sem myndu drepa og frysta allt kvikt þar sem skotin féllu til jarðar. Sturlaði vísindamaðurinn beitir skaðræðisvopni sínu en misreiknar sig: byssukúlan þeytist út í geim og fyrir slysni tekst honum að frysta sjálfan sig. Án einræðisherrans hrynur valdakerfi Stálborgar til grunna og íbúum Ville-France er borgið.

Sumum aðdáenda Jules Verne er mikið í mun að draga fram alla þá spádóma hans sem rættust með tíð og tíma. Hafa þeir hinir sömu bent á Auðævi hefðarfrúarinnar sem spásögn um bæði risafallbyssur og eiturgashernað fyrri heimsstyrjaldarinnar sem og uppgang alræðisstefna á fjórða áratugnum. Hvað sem því líður er eftirtektarvert hversu svartsýnni mynd er dregin upp af eyðileggingarmætti tækninnar í bókinni en í fyrri verkum. Átti þetta stef eftir að verða sífellt fyrirferðarmeira í sögum Verne það sem eftir var af ferli hans.

Ekki er þó víst að heimsenda­spárnar séu til marks um vaxandi bölsýni skáldsins með aldrinum. Á það hefur verið bent að Jules Verne hafi alla tíð litið svo á að tæknin gæti reynst mannkyninu jafnt bölvun sem blessun, en útgefandinn hafi framan af lagt fast að honum að einbeita sér að hinu jákvæða.

Þá má ekki gleyma því að Verne kom ekki einn að gerð bókarinnar. Alsiða var að dáðir rithöfundar tækju hugmyndir úr bókum minni spámanna og nýttu í sín eigin verk. Nokkur dæmi voru um slíkt á höfundarferli Verne og fengu upphaflegu höfundarnir þá fulla greiðslu fyrir.

Í þessu tilviki var málið þó örlítið flóknara. Rithöfundurinn Paschal Grousset frá Korsíku, góður vinur Verne, var í útlegð í Lundúnum eftir þátttöku sína í Parísarkommúnunni. Útgefandi þeirra beggja treysti sér ekki til að gefa út verk Grousset meðan svo stóð á. Í útlegðinni samdi Grousset handrit sem Verne þróaði áfram, þar með talið söguna um hinn sturlaða prófessor Schultze. Deilt er um hversu stór þáttur Grousset var í raun í lokaútgáfu sögunnar.

Auðævi hefðarfrúarinnar er fjarri því ein af betri sögum Jules Verne og ólíklegt má telja að nokkrum komi til hugar að gefa hana út á íslensku. Sagan er þó forvitnileg heimild um franskt hugarfar áranna eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum. Boðskapurinn er þó örlítið dapurlegur, því í bókarlok ákveða íbúar heilsuborgarinnar Ville-France að halda áfram að starfrækja vopnaverksmiðjur Stálborgar, til að verja sig fyrir mögulegum árásum í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×