Menning

Sægur leikara í sveitinni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Leikhópurinn sem tekur þátt í nýjustu uppfærslu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna, samhentur hópur af nýjum og reyndari leikurum.
Leikhópurinn sem tekur þátt í nýjustu uppfærslu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna, samhentur hópur af nýjum og reyndari leikurum. Fréttablaðið/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna frumsýndi nýlega leikritið „Sálir Jónanna ganga aftur“ eftir Ingibjörgu Hjartardóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur og Unni Guttormsdóttur í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Sýningar fara fram í félagsheimilinu Aratungu.

Leikritið er „gaman-draugadrama“ sem styðst við minni úr þjóðsögunni um sálina hans Jóns míns og leikritinu Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson. Þar er sagt frá fjórum Jónum sem gefa upp öndina á svipuðum tíma. Djöfullinn nýtir tækifærið og reynir allt til að ná þessum fjórum sálum, því í helvíti er heldur þunnskipað lið. Það gengur ýmislegt á þegar sálum skal komið yfir til himnaríkis og margt gerist á leiðinni upp sem fær gesti til að hlæja og hlæja.

„Sálir Jónanna ganga aftur“ er þrítugasta leikritið sem Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna setur upp frá stofnun þess 1961. Fjórtán leikarar taka þátt, auk aðstoðarfólks.

Íris Blandon, sem leikur Móra, er formaður leikfélagsins. Hún segir nýja leikritið vera frábært verk. „Leikhópurinn er búinn að hlæja mikið saman í æfingaferlinu, ekki síst þegar við lásum verkið yfir, sem segir okkur að þetta sé gott stykki.“

Íris leggur áherslu á að áhugaleikfélag með frábæru fólki úr Bláskógabyggð og sveitarfélögunum í kring standi að sýningunni. En hvernig gekk að manna leikritið í ár? „Það var ekkert mál, við fengum fullt af nýju fólki í bland við reynslubolta úr félaginu sem er æðislegt. Það er mikill áhugi á leiklist í uppsveitum Árnessýslu enda víða verið að setja upp leikrit,“ segir Íris og bætir því við að það sé bráðnauðsynlegt fyrir hverja sveit að eiga áhugaleikfélag. „Það er svo gott fyrir ungt fólk að starfa í leikfélagi til að losna við feimni og hömlur og ekki síst að gera sig að fífli og njóta þess,“ segir Íris hlæjandi. Hún hvetur íbúa á Suðurlandi og aðra áhugasama til að mæta á sýningu í Aratungu til að skemmta sér eina kvöldstund og fá útrás fyrir hlátur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.