Sport

Yoel Romero rotaði Rockhold í Ástralíu

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Romero fagnar sigri.
Romero fagnar sigri. Vísir/Getty
UFC 221 fór fram í nótt í Perth í Ástralíu. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Yoel Romero rota Luke Rockhold í 3. lotu.

Upphaflega átti aðalbardagi kvöldsins að vera upp á bráðabirgðartitilinn (e. interim title) í millivigtinni. Yoel Romero tókst hins vegar ekki að ná tilsettri þyngd fyrir bardagann og gat því ekki orðið meistari með sigri.

Bardaginn var taktískur og rólegur framan af en eins og Romero hefur svo oft sýnt áður er alltaf stutt í sprengikraftinn. Eftir tvær tiltölulega rólegar lotur smellhitti Romero með yfirhandar vinstri í 3. lotu. Rockhold féll niður og fylgdi Romero eftir með öðru höggi og bardaganum var lokið.

Romero fagnaði gríðarlega en fór strax til Rockhold til að tala við hann. Rockhold virtist engan áhuga hafa á að hlusta á það sem Romero hafði að segja. Romero haltraði á leið úr búrinu en ekki er vitað nánar um meiðslin sem hann varð fyrir í búrinu.

Þrátt fyrir að Romero hafi ekki unnið bráðabirgðartitilinn má telja líkleg að hann mæti Robert Whittaker þegar millivigtarmeistarinn nær heilsu.

UFC 221 var ekki hlaðið stórstjörnum en var skemmtilegt bardagakvöld. Öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×