Innlent

Fjöldahjálparstöð opnuð á Selfossi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Hellisheiði í gær.
Frá Hellisheiði í gær. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Átján ferðamenn bíða nú af sér veðrið í Fjöldahjálparstöð Rauða Krossins á Selfossi sem opnuð var fyrir skömmu. Unnið er að því að greiða úr umferðarteppu sem myndaðist eftir aftanákeyrslu við Þjórsárbrú.

Í samtali við Vísi segir Fjóla Einarsdóttir, svæðisstjóri Rauða Krossins á Suðurlandi að ferðamennirnir, sem eru í tveimur hópum, muni bíða átekta og athugað hvort að veðri muni slota eftir því sem líður á kvöldið, annars verði þeim komið fyrir á hóteli í nótt.

Fjöldahjálparstöðin verður opin eftir þörfum og stendur Rauði Krossinn vaktina þangað til að séð verður fyrir endann á samgöngutruflunum vegna veðurs.

„Það er búið að vera alveg hryllilegt en það virðist vera að lægja,“ segir Fjóla um hvernig veðrið sé á Selfossi og nágrenni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru lögregla, sjúkrabifreið og björgunarsveitir nú við Þjórsárbrú þar sem bifreið var ekið aftan á aðra bifreið sem sat föst í snjó á veginum.

Í kjölfarið myndaðist umferðarteppa sem unnið er að greiða úr. Engin slys urðu á fólki en alls voru 10 manns í bílunum tveimur.

Þá hefur eitthvað verið um það að bifreiðar lendi utan vegar sem rekja megi til slæms skyggnis, færðar en einnig að ökumenn ofmeti akstursgetu sína í slíkum aðstæðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×