Innlent

Vill helst setja allt í bollu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Sífellt fleiri taka forskot á sæluna og gæða sér á bollum utan bolludagsins. Formaður Landssambands bakarameistara segir þetta mikinn álagstíma en hjón sem bökuðu 500 bollur fyrir kaffiboð í dag geta líklega tekið undir það.

„Það eru 35 ár síðan ég byrjaði að baka og þá var bara bolludagur á mánudeginum og það voru eiginlega helgispjöll að byrja á undan. En undanfarin ár er þetta orðið þannig að við byrjum jafnvel á fimmtudegi eða föstudegi og menn eru þá farnir að spyrja á fimmtudeginum:  „Hvenær koma bollurnar?"," segir Jóhannes Felixson, formaður Landssambands íslenskra bakarameistara, eða Jói Fel.

Samkvæmt nýlegri könnun seljast um milljón bollur í kringum bolludaginn eða um þrjár á hvern Íslending. Bakarar hafa því skiljanleg í nógu að snúast.

„Menn eru farnir að kvíða þessu svolítið svona einni til tveimur vikum fyrir bolludag. Þá eru allir að vinna á ýmsum tímum og vita að hinir séu bara heima sofandi," segir Jói Fel léttur í bragði.

Ásdís Ármannsdóttir.

Álagið er þó ekki einungis á bökurum en hjónin Ásdís Ármannsdóttir og Helgi Hreiðar Stefánsson bökuðu um fimm hundruð bollur fyrir kaffiboð í dag.

„Við erum orðin pínu svona bolludagsfólkið. Alltaf þegar ég sé einhverja uppskrift hugsa ég að ég gæti kannski sett það inn í bollu," segir Ásdís.

Síðastliðin tíu ár hafa þau á hverjum sunnudegi fyrir bolludag boðið gömlum kórfélögum í veislu. Þar er boðið upp á tíu sortir og kosið er um bestu bollurnar.

„Það er bæði valin besta bollan og gleðibollan af því hópurinn kallar sig gleðikórinn," segir Ásdís og bætir við að Daim-bollan, sem er fastur liður, hafi oftast unnið keppnina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.