Körfubolti

Stórleikur Helenu dugði skammt gegn Bosníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Ernir

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta er enn án stiga í A-riðli undankeppni EM 2019. Íslensku stelpurnar mættu Bosníu í Sara­jevo á laugardaginn og töpuðu með 30 stiga mun, 97-67.

Íslenska liðið spilaði vel í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 40-36, Bosníu í vil. Hildur Björg Kjartansdóttir minnkaði muninn í eitt stig, 41-40, í upphafi seinni hálfleiks. Þá settu þær bosnísku í fluggírinn og íslenska liðið sá ekki til sólar það sem eftir lifði leiks.

Bosnía vann þriðja leikhlutann 32-14 og þegar lokaflautið gall munaði 30 stigum á liðunum, 97-67. Skotnýting bosníska liðsins var miklu betri en þess íslenska (53,6%-35,1%) og þá rústaði Bosnía frákastabaráttunni 46-28.

Helena Sverrisdóttir átti stórleik í íslenska liðinu í fyrradag. Hún skoraði 32 stig og var stigahæst á vellinum. Helena tók einnig sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hún hitti úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sem hún tók og nýtti 15 af 16 vítaskotum sínum. Frábær frammistaða hjá Hafnfirðingnum.

Helena, sem lék sinn 67. landsleik á laugardaginn, er fjórði stigahæsti leikmaður undankeppninnar með 24,0 stig að meðaltali í leik. Hún er líka í 7. sæti á listanum yfir framlagshæstu leikmenn undankeppninnar.

Hildur Björg spilaði einnig ágætlega í leiknum á laugardaginn. Hún skoraði 16 stig og tók átta fráköst. Þær Helena skoruðu samtals 48 af 67 stigum Íslands. Enginn annar leikmaður skoraði meira en fjögur stig.

Íslenska liðið er nú komið til Svartfjallalands þar sem það mætir heimakonum í Podgorica á miðvikudaginn. Svartfellingar eru með fimm stig í A-riðli, líkt og Bosníumenn og Slóvakar. Leikurinn á miðvikudaginn hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.