Lífið

„Veturinn á Ísafirði getur verið yfirþyrmandi og því er nauðsynlegt að hafa húmor fyrir hlutunum“

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Myndin er tekin á heimili hennar á Ísafirði þar sem hún hefur búið í tvö ár.
Myndin er tekin á heimili hennar á Ísafirði þar sem hún hefur búið í tvö ár. Rebekka Guðleifsdóttir

„Veturinn hérna á Ísafirði getur verið yfirþyrmandi og því er nauðsynlegt að hafa húmor fyrir hlutunum,“ segir ljósmyndarinn og listakonan Rebekka Guðleifsdóttir en mynd sem hún tók af sér að hengja upp þvott í dag hefur vakið töluverða athygli á samfélagsmiðlum.

Á sjöundra hundrað manns hafa deilt myndinni þegar þetta er skrifað og nær athyglin langt fyrir utan landsteinana. Rebekka segir að það hafi komið henni verulega á óvart hvað myndin fær mikla athygli.

„Mér að óvörum er þessi mynd að vekja fáránlega mikla athygli. Ég hef áður birt myndir af mér þar sem ég er berfætt eða léttklædd í snjó og vaðandi út í vötn um miðjan vetur sem aldrei hafa vakið athygli í líkingu við þetta.“

Segir hún að það sé ekki auðvelt að ná á mynd hvað snjórinn er mikill á Ísafirði þessa dagana. 

„Þessi mynd var fyrst og fremst gerð í gríni. Það er erfitt að ná á mynd hvað snjórinn hérna er yfirþyrmandi mikill í augnablikinu og því datt mér í hug að stilla upp þeirri súrrealísku senu að vera að reyna að hengja upp þvott þegar þvottasnúran er næstum komin á kaf,“ segir hún.

Hún þurfti að moka slóð út að snúrunni en snjórinn var 1,6 metri á hæð. „Ég er sjálf 1,74 svo ég er ekki lítil. Snjórinn náði mér upp á axlir og ég mokaði alveg niður á gras,“ segir hún. Stærðarinnar skafli sé til hliðar við rammann sem myndin sýnir, snjórinn sem þurfti að moka til að komast út að snúrunni.

Myndin er tekin á heimili hennar á Ísafirði þar sem hún hefur búið í um það bil tvö ár.

„Ég er Hafnfirðingur og hef aldrei upplifað neitt þessu líkt,“ segir Rebekka.Svona leit garðurinn út áður en Rebekka lét til skarar skríða.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.