Lífið

Russell Peters treður upp í Eldborg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Peters þykir mjög vinsæll.
Peters þykir mjög vinsæll.

Leikarinn, höfundurinn og uppistandarinn Russell Peters heimsækir  Ísland í fyrsta sinn með sýninguna Deported til að kitla hláturtaugar Íslendinga í Eldborg þann 30. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu.

Síðustu árin hefur grínistinn rokið upp í vinsældum um allan heim með beittum húmor, eldfimri einlægni og skemmtilegum ávana að gera áhorfendur að þátttakendum í sýningunni. Peters vakti fyrst athygli með kanadíska gamanþættinum Comedy Now sem sló í gegn á YouTube og spratt upp farsæll ferill hjá leikaranum í beinu framhaldi af því.

Árið 2014 fór hann af stað með sýninguna Almost Famous og ferðaðist hann með þann uppistandstúr til 30 landa, sem á rúmlega 200 sýningum halaði inn í kringum 300,000 áhorfendur. Sú sýning sló svo í gegn á Netflix en þessa dagana fer Peters þar á kostum í þáttunum The Indian Detective.

Stærsta ævintýri Peters til þessa er farið af stað og mun hann nú ferðast um allan heim með sýninguna Deported vel inn í árið 2019. Á meðal áfangastaða eru Ástralía, Malasía, Japan, Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð, Holland, Bretland, Afríka og lætur það að sjálfsögðu ekki vera að staldra við á Íslandi til að þess sýna sínar bestu hliðar og kynna fyrir Íslendingum glænýtt efni í bland við þekktari takta.

Sýningin fer í almenna sölu á föstudag kl. 12 á Harpa.is/peters en póstlistaforsala Senu Live fer fram á fimmtudag kl. 10. Þar gefst fólki tækifæri á að tryggja sér miða heilum degi áður en almenn sala hefst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.