Erlent

Veiðiþjófur étinn af ljónum

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að ljónum í landinu hafi fækkað úr 30 þúsund í 20 þúsund í fyrra.
Talið er að ljónum í landinu hafi fækkað úr 30 þúsund í 20 þúsund í fyrra. Vísir/Getty
Líkamsleifar manns, sem lögreglan telur að hafi verið veiðiþjófur, fundust nærri þjóðgarði í Suður-Afríku. Maðurinn var drepinn af ljónum og segir lögreglan að lítið sem ekkert hafi verið eftir af líki hans. Líkið fannst um helgina á einkalóð nærri Kruger-þjóðgarðinum í Suður-Afríku og fannst hlaðinni riffill nærri því.

Umsvif veiðiþjófa hafa færst í aukanna í þjóðgarðinum á undanförnum árum, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar. Eitrað var fyrir nokkrum ljónum á sömu slóðum í fyrra og voru höfuð þeirra og loppur skornar af.



„Svo virðist sem að maðurinn hafi verið að stunda veiðiþjófnað þegar ljón réðust á hann og drápu hann. Þau átu nærri allan líkama mannsins og skildu bara eftir höfuðið og aðrar leifar,“ sagði talsmaður lögreglunnar.

Ekki liggur fyrir hver maðurinn er og reynir lögreglan að komast til botns í því.

Samkvæmt frétt Thesouthafrican.com hefur veiðiþjófnaður á ljónum færst í aukana í Suður-Afríku að undanförnu. Talið er að ljónum í landinu hafi fækkað úr 30 þúsund í 20 þúsund í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×