Enski boltinn

Messan um Pogba: Spilar eins og unglingur í fýlu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Jose Mourinho skipti Paul Pogba af velli í leik Manchester United og Newcastle í gær eftir klukkutíma leik. Hann var ekki í byrjunarliðinu í leik gegn Huddersfield í síðustu umferð og var aftur tekinn af velli eftir klukkutíma gegn Tottenham þar á undan.

Mikið hefur verið rætt um það í ensku pressunni hver ástæðan sé fyrir þessum skiptingum, hvort Pogba sé meiddur eða hvað sé á bak við þessar skiptingar. Mourinho sjálfur sagði að skiptingin væri af taktískum ástæðum. Ríkharð Óskar Guðnason tók Pogba fyrir í Messunni í gær.

„Hann virðist vera eins og unglingur að spila, fer í fýlu og fór snemma inn úr upphituninni,“ sagði Bjarni Guðjónsson, einn sérfræðinga Messunnar.

„Er hann í fýlu afþví Alexis Sanchez er kominn?“ spurði Rikki. Bjarni taldi það klárt að Frakkinn væri í fýlu, hvort sem það væri koma Sanchez eða þessar útaf skiptingar Mourinho sem væru að valda fýlunni.

„Hann þarf að gera miklu meira. Kemur þarna og á að stjórna miðjunni, er ekki að skila því. Færður framar til að koma honum í meiri sóknarstöður en það gerðist ekkert hjá honum,“ hélt Bjarni áfram.

„Mér hefur alltaf fundist hann vera betri þegar hann fær að spila með tveimur djúpum. Þegar hann er framar er hann ekki nógu áhrifaríkur,“ sagði Ríkharður Daðason.

Hann sagði jafnframt að það væri óskiljanlegt ef Pogba ætlaði að vera í fýlu út af Sanchez og samningamálum, því það gæti hvort sem er ekkert gerst fyrr en í sumar og því þyrfti hann að eyða næstu þremur mánuðum í fýlu.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.