Enski boltinn

Messan: Mætir Íslandi á HM í sumar en er bara vandræðalega lélegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Iwobi er leikmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og landsliðsmaður Nígeríu sem er að fara að mæta íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar.

Messan fjallaði um leiki helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og þar skoðuðu strákarnir sérstaklega frammistöðu hins 21 árs gamla Alex Iwobi.

„Mér finnst Wenger hafa verið með alveg ofboðslega mikið traust á Iwobi. Hann er búinn að vera lélegur í marga mánuði,“ sagði Ríkharður Daðason um Alex Iwobi.

„Hann kom inná á móti Tottenham og fyrstu fjögur skiptin sem hann fékk boltann þá hugsaði ég bara: Við erum að fara að spila við þennan gæja í sumar og það verður geggjað ef hann heldur boltanum fyrir Nígeríu. Þá munum við fá fullt af tækifærum,“ sagði Ríkharður.

„Hann er alls ekki að fara inná miðjuna hjá Nígeríu,“ greip Bjarni Guðjónsson inn í en Ríkharður var ekki hættur.

„Þetta var eiginlega bara vandræðalegt,“ sagði Ríkharður og svo voru sýndar nokkrar sóknir þar sem Alex Iwobi átti að gera eitthvað með boltann en ekkert kom út úr því.

Það má finna alla umfjöllun Messunnar um Alex Iwobi í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×