Innlent

Ófært á Mýrum og lokað yfir Öxnadalsheiði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er hálka víða á landinu í dag.
Það er hálka víða á landinu í dag.
Þrátt fyrir að allar helstu umferðaræðar til höfuðborgarinnar séu opnar þennan morguninn ættu ökumenn engu að síður að hafa varann á. Á Suðvestur- og Suðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og víða skafrenningur. Að sama skapi er sjókoma í uppsveitum Suðurlands og í Hvalfirði.

Svipaða sögu er að segja annars staðar á landinu. Þungfært er undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli. Snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi og víða éljagangur eða snjókoma. Þæfingsfærð á Bröttubrekku og á Útnesvegi en ófært er á Mýrum eftir nóttina, sem og í nágrenni Arnarstapa.

Sjá einnig: Miklar líkur á dimmri snjókomu í morgunumferðinni

Einnig er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum á Vestfjörðum og enn ófært á Klettshálsi og þæfingsfærð í Reykhólasveit og á Þröskuldum.

Ástandið er sambærilegt á Norðurlandi þar sem er hálka og snjóþekja á vegum og þæfingsferð í Víkurskarði. Hins vegar er lokað yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði vegna óveðurs - „en hægt er að fara Þverárfjall og fyrir Tröllaskaga en þar er mjög hvasst og blint á köflum,“ segir Vegagerðin sem býst við að aðstæður á þessum fjallvegum batni um miðjan dag.

Á Austurlandi er víða snjóþekja á vegum en á Fjarðarheiði er þungfært og mjög hvasst. Hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð er með suðausturströndinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×