Skoðun

Aðgerðir í menntamálum

Arnór Guðmundsson skrifar
Því hefur verið haldið fram að stjórnvöld hafi ekkert aðhafst til að efla læsi íslenskra nemenda og að draga úr brotthvarfi. Er þá horft fram hjá því að fyrir liggur skýr stefna um þessi atriði sem fylgt hefur verið eftir með aðgerðum. Hefur það verið eitt af helstu verkefnum Menntamálastofnunar frá því hún var sett á fót árið 2015 að innleiða úrbætur.

Í Hvítbók um umbætur í menntamálum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2014 eru sett fram mælanleg markmið um læsi við lok grunnskóla og námsgengi í framhaldsskólum. Í kjölfarið skrifuðu allar bæjar- og sveitarstjórnir landsins undir Þjóðarsáttmála um læsi og skuldbundu sig til að vinna að eflingu læsis m.a. með því að setja sér læsisstefnu og fylgja henni eftir. Jafnframt er í sáttmálanum tilgreint að Menntamálastofnun veiti sveitarfélögum stuðning og ráðgjöf til að ná markmiðum sínum. Hefur Menntamálastofnun þegar veitt beina ráðgjöf til um 60 sveitarfélaga, aukið framboð á námsefni og gert aðgengileg skimunarpróf í lesfimi sem lögð hafa verið fyrir yfir 90% grunnskólanemenda.



Aðgerðir gegn brotthvarfi í framhaldsskólum

Miklar breytingar eiga sér nú stað í framhaldsskólum með endurskipulagningu náms og nýjum námsleiðum. Í Hvítbókinni eru sett fram markmið um að fleiri framhaldsskólanemendur ljúki námi á tilskildum tíma. Innleiðing nýrra námsbrauta og stytting námstíma eru leiðir til að vinna að þeim markmiðum en einnig hefur verið ráðist í sérstakar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi. Lögð hafa verið fyrir skimunarpróf fyrir nýnema allra framhaldsskóla til að meta hættu á brotthvarfi. Framhaldsskólar hafa síðan nýtt niðurstöður prófanna til að móta aðgerðir sem henta ólíkum áhættuhópum og fengið fjárstyrki til að fylgja þeim eftir.

Í íslenskri skýrslu um niðurstöður PISA 2015 er fjallað um umbætur í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en þær þjóðir hafa náð að viðhalda eða bæta árangur sinn í læsi. Þeim aðgerðum sem beitt var í þessum löndum svipar um margt til þess sem nú er unnið að hér á landi. Engin ástæða er til að ætla annað en að Ísland geti náð sambærilegum árangri.

Höfundur er forstjóri Menntamálastofnunar




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×