Innlent

Íbúar Hrafnistu lukkulegir á sprengidaginn: 300 kíló af saltkjöti og 4.000 kartöflur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Landsmenn fagna sprengideginum í dag með því að troða sig vel út af saltkjöti, baunum og öllu tilheyrandi. Maturinn vakti mikla lukku meðal íbúa á Hrafnistu í Reykjavík en þar voru soðin hvorki meira né minna en 300 kíló af saltkjöti og fleiri þúsund kartöflur ofan í íbúa og starfsfólk.

Kokkurinn á Hrafnistu í Reykjavík stóð vaktina yfir pottunum þegar fréttastofu bar að garði í hádeginu í dag en þar er eldað fyrir allar deildir Hrafnistu á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum að taka svona um 300 kíló hér hjá okkur. Þetta er fyrir 850 manns, vistfólk og starfsfólk,“ segir Kristján Halldórsson kokkur á Hrafnistu. „Við erum bæði með beinakjöt og rúllukjöt og bara hæg suða og allir glaðir.“

Meðlætið er ekki síður mikilvægt en í eldhúsinu hjá Kristjáni voru soðnar um það bil fjögur þúsund kartöflur í hádeginu. Valgarð Briem, heimilismaður á Hrafnistu, segir alltaf jafn gaman þegar sprengidagur rennur upp. „Það er ósköp skemmtilegt. Maður myndi svo sem lifa án þess en þetta er afskaplega góð hefð,“ segir Valgarð.

Ekki skemmir heldur fyrir þegar máltíðin að rifja upp gamlar minningar. „Pabbi minn átti nokkrar kindur hérna úti Viðey og þeim var slátrað fyrir sunnan húsið hjá okkur og saltað niður í tunnur og svo var þetta borðað yfir veturinn,“ segir Valgarð. 

Sigríður Valdís Sörensdóttir tekur í sama streng og Valgarð og segir saltkjötið algjört lostæti. „Það er ekki hægt að sleppa því. Þetta er mjög gott hjá þeim hérna, saltkjötið er vel salt, þetta er bara reglulega ágætt,“ segir Sigríður. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.