Innlent

Einn helsti ljóðasmiður þjóðarinnar jarðsunginn í dag

Heimir Már Pétursson skrifar

Útför Þorsteins Jónssonar frá Hamri fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Þorsteinn var eitt virtasta skáld Íslendinga og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín.

Þorsteinn Jónsson fæddist hinn 15. mars árið 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði og sem skáld og rithöfundur kenndi hann sig við fæðingarstaðinn. Hann lést að heimili sínu í Reykjavík að morgni sunnudagsins 28. janúar.

Að loknu námi í Kennaraskóla Ísland vann Þorsteinn sem aðstoðarbókavörður á Bókasafni Kópavogs frá 1961 til ársins 1967 en eftir það fékkst hann við ritstörf, samhliða prófarkalestri, þýðingum og gerð útvarpsþátta.

Fyrsta ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Í svörtum kufli, kom út þegar hann var tvítugur en alls urðu ljóðabækur hans 26 talsins. Þorsteinn skrifaði einnig skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja fjölmargar þýðingar.

Þorsteinn frá Hamri hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi og var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fimm sinnum. Verk Þorsteins hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Bæði Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra voru meðal fjölmargra sem voru við útför Þorsteins í dag.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.