Viðskipti innlent

Hagnaður Regins dregst saman um 11 prósent

Þórdís Valsdóttir skrifar
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags.
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags. Vísir/GVA
Hagnaður Regins hf. dróst saman um 11 prósent á síðasta ári en hagnaður félagsins var tæplega 3.798 milljónir króna. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins. 

Í ársreikningi félagsins kemur fram að afkoma Regins á árinu 2017 hafi verið góð og „í samræmi við væntingar“. Rekstrartekjur fasteignafélagsins jukust á milli áranna 2016 og 2017 en á síðasta ári voru þær 7,1 milljarður króna samanborið við 6,6 milljarða árið 2016. Af rekstrartekjunum voru 6,6 milljarðar króna leigutekjur og hafa þær hækkað um 8 prósent á milli ára.

Eiginfjárhlutfall félagsins var í lok árs 2017 var 35 prósent, það var rúmlega 34 milljarðar króna í lok síðasta árs og eykst um rúmlega fimm milljarða á milli ára.

Þá segir einnig í uppgjörinu að yfirstandandi umbreytingar í Smáralind á síðasta ári hafi haft áhrif á tekjur og afkomu félagsins, eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Áhrifin eru tímabundið lægri tekjur og hærri rekstrarkostnaður.

Rekstrarhagnaður Regins á fjórða ársfjórðungi nam 1.826 milljónum króna. Hagnaður félagsins nam 2.313 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi og dregst hann því nokkuð saman á milli ársfjórðunga. Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri félagsins séu góðar en áætlað er að leigutekjur félagsins aukist um tæpan milljarð króna á þessu ári.

Í uppgjörinu kemur fram að stjórn Regins leggi til að ekki verði greiddur arður á þessu ári.

Eignasafn Regins samanstendur af atvinnuhúsnæði en alls á félagið 122 fasteignir. Þar af eru 30 prósent verslunarhúsnæði, 32 prósent skrifstofuhúsnæði, 19 prósent iðnaðar og geymsluhúsnæði, 5 prósent hótel og 14 prósent íþrótta-, mennta- og afþreyingarhúsnæði. Heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 330.000. Meðal eigna í safninu má nefna Smáralind og Egilshöll.








Tengdar fréttir

Reginn kaupir turninn við Höfðatorg

Fasteignafélagið Reginn hyggst ganga frá kaupum á eignum Fast-1, Fast-2 og HTO. Eignirnar sem um ræðir eru turninn við Höfðatorg, Borgartún 8-16 o.fl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×