Innlent

Hættulegt ferðaveður undir Eyjafjöllum í fyrramálið

Birgir Olgeirsson skrifar
Veðrið verður ekki glæsilegt á morgun og ferðalangar beðnir um að sýna aðgát.
Veðrið verður ekki glæsilegt á morgun og ferðalangar beðnir um að sýna aðgát. Veðurstofa Íslands

Hættulegt ferðaveður verður undir Eyjafjöllum í fyrramálið. Veðurstofa Íslands hefur varað við norðaustan roki á Suður- og Suðausturlandi frá klukkan fimm til hádegis á morgun. Er búist við austan og norðaustan 23 til 30 metrum á sekúndu frá Hvolsvelli og austur með Eyjafjöllum en norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu vestan til á svæðinu. 

Mjög snarpar vindhviður verða undir Eyjafjöllum og hætta á foktjóni. Verður takmarkað skyggni í ofankomu og skafrenningi á svæðinu. 

Búist er við norðaustan stormi á Faxaflóa, 18 til 25 metrum á sekúndu, og mjög snörpum vindhviðum við fjöll, og er Kjalarnes og Hafnarfjall nefnt sérstaklega í viðvörun Veðurstofu. Lélegt skyggni verður í skafrenningi, einkum á fjallvegum og eru ferðalangar beðnir um að sýna aðgát. 

Allt landið er í raun undir, gul viðvörun gildir í öllum landsfjórðungum á morgun nema á Suður- og Suðausturlandi þar sem appelsínugul viðvörun verður í gildi. Það mun því hvessa í nótt, austan og norðaustan 15-25 á morgun, en 25-30 syðst á landinu. Lægir eftir hádegi sunnanlands, síðar einnig í öðrum landshlutum, allvíða austan 8-15 undir kvöld. Snjókoma, slydda eða rigning um allt land, einkum á austanverðu landinu. Hiti um og yfir frostmarki síðdegis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum, annars austlæg eða breytileg átt 3-10. Skúrir eða él, en lengst af þurrt suðvestantil á landinu. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á föstudag og laugardag:
Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari vindur og bjartviðri á N- og A-landi. Hiti rétt ofan frostmarks við S- og V-ströndina, annars frost 1 til 7 stig.

Á sunnudag:
Sunnanátt með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður.

Á mánudag:
Sunnanátt með rigningu eða súld, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 10 stig.

Á þriðjudag:
Snýst í suðvestanátt með skúrum og síðar éljum og kólnandi veðri. Þurrt norðaustantil á landinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.