Viðskipti innlent

Eignast rekstur Sports Direct á Íslandi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hinn litríki Mike Ashley.
Hinn litríki Mike Ashley.
Íþróttavörukeðjan Sports Direct, sem er í eigu breska kaupsýslumannsins Mikes Ashley, hefur keypt 60 prósenta eignarhlut Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar og fjölskyldu í verslun Sports Direct á Íslandi. Eftir kaupin á breska keðjan verslunina að öllu leyti og hefur tekið yfir reksturinn.

„Við fundum lausn á okkar málum og það ganga allir sáttir frá borði,“ segir Sigurður Pálmi, sem er framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi, í samtali við Markaðinn. Hann segir kaupverðið trúnaðarmál.

Deilur hafa staðið yfir á milli Ashleys, stofnanda íþróttavörukeðjunnar, og íslensku fjárfestanna um nokkurt skeið. Þannig var greint frá því í dagblaðinu Sunday Times í ágúst á síðasta ári að keðja Ashleys, sem átti þá 40 prósenta hlut í Sports Direct á Íslandi, hefði boðist til þess að kaupa 60 prósenta hlut Íslendinganna á 100 þúsund evrur eða sem jafngildir um 12,5 milljónum króna.

Til samanburðar var nefnt í fréttinni að íslenska verslunin velti sem samsvarar um 1,25 milljörðum króna á ári og skilaði um 250 milljóna króna árlegum hagnaði. Ekki væri óvarlegt að ætla að virði verslunarinnar næmi sem jafngildir 2,5 milljörðum króna.

Sjá einnig: Valdabarátta um Sports Direct í Kópavogi leiðir til málsóknar

Tilboðinu var hafnað, en Sunday Times hafði eftir heimildarmanni sínum að það hefði verið „svívirðilegt“. Í kjölfarið sagðist Ashley ætla að stefna Sigurði Pálma og félögunum Rhapsody Investments og Guru Invest fyrir samningsbrot, en síðarnefnda félagið er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, móður Sigurðar Pálma og forstjóra 365 miðla, eiganda Fréttablaðsins.

Sættir hafa nú náðst með kaupum Sports Direct á 60 prósenta hlut íslensku fjárfestanna og segir Sigurður Pálmi að engar deilur séu lengur á milli manna.

Verslun Sports Direct var opnuð hér á landi árið 2012 í samstarfi Sigurðar Pálma, Sports Direct og bankamannsins fyrrverandi Jeffs Blue. Sá síðastnefndi, sem starfaði á árum áður hjá Baugi og er sagður lykilmaður í stofnun íslensku verslunarinnar, átti til að byrja með 15 prósenta hlut í íslensku versluninni en hann seldi hlutinn síðar á nafnvirði til Sports Direct í þeirri trú að hann yrði gerður fjármálastjóri keðjunnar. Hann lenti hins vegar upp á kant við Ashley árið 2015 og dró sig út úr verkefninu.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi
Verslun Sports Direct á Íslandi var í frétt Sunday Times sögð sú arðbærasta sem rekin væri undir merkjum Sports Direct en þær eru alls um 700 talsins í 19 Evrópuríkjum.

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins NDS, sem heldur utan um rekstur verslunarinnar hér á landi, frá 1. maí 2015 til 30. apríl 2016, varð 69 milljóna króna hagnaður af rekstri verslunarinnar. Til samanburðar nam hagnaðurinn 5,8 milljónum króna á fyrra rekstrarári. Sala verslunarinnar nam 1.033 milljónum króna á tímabilinu borið saman við 922 milljónir á rekstrarárinu 2014 til 2015. Auk þess voru rekstrargjöld NDS 919 milljónir samkvæmt síðasta rekstrarreikningi og jukust um ríflega 30 milljónir á milli ára.

Umtalaður

Verslunin átti eignir upp á 251 milljón króna í lok aprílmánaðar 2016 og var eiginfjárhlutfallið 20,4 prósent á sama tíma.

Mike Ashley er einn umtalaðasti kaupsýslumaðurinn í bresku efnahagslífi. Yfir þrjátíu ár eru síðan hann stofnaði Sports Direct, þá aðeins átján ára að aldri, en íþróttavörukeðjan er nú metin á um 1,93 milljarða punda eða sem jafngildir ríflega 270 milljörðum króna.

Hann er auk þess eini eigandi enska knattspyrnufélagsins Newcastle United og þá átti hann einnig um níu prósenta hlut í skoska félaginu Glasgow Rangers sem hann seldi síðasta sumar. Samkvæmt úttekt viðskiptatímaritsins Forbes eru eignir Ashleys metnar á 3,6 milljarða dala eða um 365 milljarða króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×