Viðskipti innlent

Innflæði í ríkisskuldabréf dróst verulega saman

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Verulega hægðist á innflæði fjármagns vegna fjárfestinga erlendra fjárfesta í ríkisskuldabréfum á fjórða fjórðungi síðasta árs. Þannig nam innflæðið aðeins 2,4 milljörðum króna á fjórðungnum borið saman við 8,5 milljarða á þriðja fjórðungi og 7 milljarða á öðrum fjórðungi ársins, samkvæmt nýjum tölum sem Seðlabanki Íslands hefur birt. Þar af var innflæðið ekkert í október og desember.

Á sama tíma jókst hins vegar innflæði frá erlendum fjárfestum verulega í skráð hlutabréf í Kauphöllinni. Þannig keyptu þeir í skráðum félögum fyrir 15,4 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs borið saman við 8 milljarða á þriðja ársfjórðungi.

Innflæði fjármagns vegna fjárfestinga erlendra fjárfesta í ríkisskuldabréfum hófst á ný í apríl á síðasta ári eftir að það stöðvaðist alfarið þegar Seðlabanki Íslands virkjaði sérstakt fjárstreymistæki í júní árið 2016. Var þá kveðið á um að 40 prósent af innflæði fjármagns vegna fjárfestinga í skuldabréfum þyrfti að binda í eitt ár á núll prósent vöxtum. Er markmið reglnanna að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til landsins og stuðla að fjármálastöðugleika.

Heildarinnflæði frá erlendum fjárfestum í ríkisskuldabréf nam samanlagt 18,3 milljörðum króna á öllu síðasta ári. Innflæðið í skráð hlutabréf var hins vegar 48,2 milljarðar króna á sama tíma og jókst umtalsvert á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×