Sport

Kópavogur rukkar rúman milljarð vegna leigu á íþróttamannvirkjum

Benedikt Bóas skrifar
Það hefur verið ýmislegt verið gert í Kórnum; stórtónleikar, fótbolti, landsleikir og nú síðast amerískur fótbolti.
Það hefur verið ýmislegt verið gert í Kórnum; stórtónleikar, fótbolti, landsleikir og nú síðast amerískur fótbolti.
Íþróttafélögum í Kópavogi verður von bráðar sendur reikningur vegna leigu af íþróttamannvirkjum bæjarins fyrir árið 2017. Er heildarreikningurinn rétt yfir milljarði króna. Það er á grundvelli reglna íþróttaráðs Kópavogs um afnot af íþróttamannvirkjum frá 2015 sem þetta er gert.

Á móti reiknaðri leigu kemur síðan styrkur frá íþróttaráði að sömu fjárhæð til viðkomandi íþróttafélags, sem skal færa sem styrk á móti reiknaðri leigu í ársreikningum félaganna.

„Þetta er í raun bókhaldsleg aðgerð hjá bænum og hefur engin áhrif á reksturinn,“ segir Sigurjón Sigurðsson, formaður HK, en félagið er rukkað um hæstu upphæðina, um 460 milljónir króna, og fær því hæsta styrkinn á móti.



Breiðablik fær silfrið og er rukkað um 412 milljónir. Golfklúbburinn GKG fær 5,5 milljónir í rukkun og styrk en golfklúbburinn nýtur góðs af því að sækja styrki til bæði Kópavogs og Garðabæjar. Í bæjarráði Garðabæjar í gær var samþykkt að fella niður sjö og hálfrar milljón króna fasteignagjöld.

Sigurjón segir að þessum peningum sé ekki illa varið enda sé íþróttastarf í Kópavogi blómlegt. „Eigum við ekki að segja að íþróttastarfið sé eitt af því sem laði skattgreiðendur að Kópavogi. Trúlega þess vegna sem flest allt ungt fólk er að flytja í Kópavog. Hér eru góðir skólar, frábært íþróttastarf og ýmislegt fleira. Börn geta gengið í íþróttastarfið og það er metnaður í bænum að gera vel. Þessar tölur eru bókhaldslega réttar en þetta segir ekkert um hve mikið af styrkjum við fáum í okkar afreksstarf til dæmis.“

Sigurjón segist í skýjunum með aðstöðuna sem HK hefur í Kórnum og bendir á að nýtt gervigras sem lagt var á völlinn hafi komið vel út. „Þetta er geggjuð aðstaða. Þetta er ekki eins og í gamla daga þar sem æft var á möl og allt var frosið. Það er einhver ástæða fyrir þessari velgengni fótboltans,“ segir hann kampakátur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×