Viðskipti innlent

Greiddi tvo milljarða til ríkissjóðs

Hörður Ægisson skrifar
Frá útgáfu bréfsins hefur Kaupþing greitt um 7,5 milljarða í vexti.
Frá útgáfu bréfsins hefur Kaupþing greitt um 7,5 milljarða í vexti.
Kaupþing innti af hendi vaxta­greiðslu til ríkisins upp á um 1,9 milljarða króna í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í svari Kaupþings við fyrirspurn Markaðarins.

Greiðslan kemur til vegna 84 milljarða veðskuldabréfs sem Kaupþing gaf út til ríkisins í ársbyrjun 2016 sem hluta af stöðugleikaframlagi slitabús gamla bankans. Skuldabréfið ber 5,5 prósenta vexti. Í svari Kaupþings segir að félagið hafi frá útgáfu skuldabréfsins greitt samtals 7,53 milljarða króna í vaxtagreiðslur til ríkisins.

Heildargreiðslur Kaupþings til ríkissjóðs vegna bréfsins frá útgáfu nema því samtals um 56,6 milljörðum króna. Þeir fjármunir sem fengust við sölu Kaupþings á tæplega 30 prósenta hlut sínum í Arion banka í mars á síðasta ári – um 49 milljarðar króna – fóru í að greiða inn á höfuðstól skuldabréfsins.

Kaupþing á því sem stendur enn eftir að greiða um 35 milljarða inn á bréfið. Aðeins er heimilt að borga inn á höfuðstól þess með fjármunum sem falla til í tengslum við sölu á hlut Kaupþings í Arion banka en greiða þarf bréfið upp að fullu fyrir árslok 2018. Stjórnendur félagsins, sem á núna 57 prósenta hlut í Arion banka, stefna að því að selja um 30 til 40 prósenta hlut í gegnum hlutafjárútboð síðar á árinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×