Innlent

Lægð dagsins annars eðlis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lægðin sem heilsar upp á landsmenn í dag er víðáttumikil.
Lægðin sem heilsar upp á landsmenn í dag er víðáttumikil. VÍSIR/VILHELM

Alls ekkert ferðaveður verður syðst á landinu í dag, frá Hvolsvelli og austur fyrir Öræfi. Á þeim slóðum getur slegið í ofsaveður þegar hæst stendur

Er það ekki síst í ljósi þess að lægð dagsins í dag er annars eðlis en lægðir síðustu vikna, sem hafa verið litlar og krappar ásamt því að miðjur þeirra hafa farið yfir landið.

Lægðin sem heilsar upp á landsmenn í dag er víðáttumikil og miðja hennar verður á djúpunum suður af landinu með þrýstingi rétt undir 950 mb að sögn veðurfræðings.

„Lægðin sendir samskil yfir landið og í þeim er austan stormur og úrkoma,“ segir hann. Hann bætir við að það hlýni hjá okkur í dag „upp í frostmarkið eða rétt yfir það,“ og því verður úrkoman ýmist rigning, slydda eða snjókoma og mest af henni suðaustan- og austanlands.

Óveðrið sem gæti orðið í dag mun þó ekki standa lengi yfir á hverjum stað ef marka má Veðurstofuna. það lægir snögglega við suðurströndina kringum hádegi og síðar einnig í öðrum landshlutum, með þeirri undantekningu að það blæs hraustlega á Vestfjörðum fram yfir miðnætti.

Sjá einnig: Lokað á Hellisheiði og hluta þjóðvegarins

Það verður svo fremur rólegt veður víðast hvar á morgun. Skúrir eða slydduél og hiti kringum frostmark, en hann ætti að hanga þurr í suðvesturfjórðungnum lengst af.

Þá er ekki að sjá „nein stórátök“ í kortunum fyrir föstudag og laugardag. Hann gæti þó farið í sunnanátt með hláku á sunnudag og mánudag - „en enn er óvissa í spám um hversu mikil hlýindin verða.“


Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum, annars austlæg eða breytileg átt 3-10. Skúrir eða él, en lengst af þurrt suðvestantil á landinu. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á föstudag og laugardag:
Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari vindur og bjartviðri á N- og A-landi. Hiti rétt ofan frostmarks við S- og V-ströndina, annars frost 1 til 7 stig.

Á sunnudag:
Sunnanátt með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður.

Á mánudag:
Sunnanátt með rigningu eða súld, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 10 stig.

Á þriðjudag:
Snýst í suðvestanátt með skúrum og síðar éljum og kólnandi veðri. Þurrt norðaustantil á landinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.