Erlent

Netanyahu vísar ásökunum á bug

Atli Ísleifsson skrifar
Benjamín Netanyahu ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi.
Benjamín Netanyahu ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi. Vísir/AFP

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, vísar því algjörlega á bug að hann sé flæktur í spillingarmál. Lögreglan í Ísrael hefur forsætisráðherrann grunaðan um að flækjast í mútumál og sagði í gær að rétt væri að ákæra hann.

Netanyahu hélt tölu í ísraelska sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem hann sagði allar slíkar ásakanir byggðar á falsi og hét hann því að halda áfram sem forsætisráðherra. Hann bætti því við að hann sé öruggur um að sannleikurinn eigi eftir að koma í ljós.

Lögreglan segir hins vegar að næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að ákæra hann fyrir mútur og sviksemi í tveimur aðskildum málum. Forsætisráðherrann er 68 ára og gegnir nú embætti forsætisráðherra öðru sinni á ferlinum en alls hefur hann setið í þessu valdamesta embætti Ísraels í tólf ár.

Gæti tekið mánuði
Saksóknari fer nú yfir málið og gæti það tekið nokkra mánuði að koma í ljós hvort ákærur verði gefnar út.

Annað málið snýst um að Netanyahu hafi beðið ritstjóra dagblaðs um jákvæða umfjöllun um sig og í staðinn bauðst hann til að gera keppinauti blaðsins erfitt fyrir. Hitt málið snýr að ásökunum þess efnis að ráðherrann hafi þegið gjafir sem voru milljóna virði frá kvikmyndaframleiðandanum Arnon Milchan. Í staðinn hugðist Netanyahu aðstoða Milchan við að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.