Enski boltinn

Telur að Guardiola væri mun betri þjálfari fyrir Pogba en Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba.
Paul Pogba. Getty
Jamie Redknapp, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, telur að Paul Pogba, leikmaður Manchester United, væri miklu betri í liði Manchester City undir stjórn Pep Guardiola.

Hann er ekki hrifinn af því að sjá Pogba spila aftarlega á miðjunni með Nemanja Matic og telur að Guardiola myndi miklu frekar ná því besta fram í honum.

„Ég trúi varla að staðan sé orðin svona því þegar að hann fékk rauða spjaldið á móti Arsenal kepptust allir um að benda á þá tölfræði að United vinnur ekki án Pogba,“ sagði Redknapp í þættinum The Debate á Sky Sports.

„Það sögðu allir að Pogba væri ómissandi en nú er hann orðinn vonlaus aftur. Þegar að vel gengur er hann besti leikmaður heims en nú, af því hann var svo dýr, er verið að slátra honum.“

Pogba hefur fengið mikla gagnrýni eftir 1-0 tap United gegn Newcastle um síðustu helgi þar sem að hann kláraði ekki 90 mínútur þriðja leikinn í röð.

„Mourinho fær ekki það besta út úr honum með því að taka hann út af. Ég er ekki að segja að það eigi að dekra við Pogba en ég sé ekki að Guardiola væri alltaf að taka hann út af. Ef Pogba væri leikmaður Man. City væri hann einn besti leikmaður liðsins. Algjör stjarna. Mourinho fær bara ekki það besta út úr honum,“ sagði Jamie Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×