Innlent

Rekstrarkostnaður við bíl Ásmundar rúmlega tvær milljónir króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk hæstu greiðsluna vegna aksturskostnaðar af þingmönnum í fyrra.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk hæstu greiðsluna vegna aksturskostnaðar af þingmönnum í fyrra. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fyrir Morgunútvarpið á Rás 2 kostar það Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, rúmlega tvær milljónir króna á ári að reka Kia Sportage-bíl sinn miðað við notkun hans í fyrra. Það er um 2,6 milljónum króna minna en Ásmundur fékk í aksturskostnað frá Alþingi árið 2017 en greiðsla til hans vegna þess nam 4,6 milljónum króna.

Sjá einnig:
Fjöldi þingmanna fer ekki að reglum

Var Ásmundur sá þingmaður sem fékk mest greitt í aksturskostnað frá Alþingi á liðnu ári en samkvæmt svari forseta þingsins við fyrirspurn Björns Levís Gunnarsson, þingmanns Pírata, ók Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra og fékk endurgreitt í samræmi við það. Reglur forsætisnefndar gera ráð fyrir að þingmenn sem aka umfram 15 þúsund kílómetra á ári vegna vinnu sinnar skuli færa sig yfir á bílaleigubíl sem Alþingi leggur til.

Samkvæmt útreikningum FÍB er rekstrarkostnaður við bíl Ásmundar, með fjármagnskostnaði, 2,07 milljónir á ári. Um er að ræða Kia Sportage-jeppling sem er fjórhjóladrifinn og gengur fyrir dísilolíu. Ef um væri að ræða nýjan bíl væri rekstrarkostnaðurinn 2,44 milljónir króna á ári.

Reikningsdæmi FÍB fyrir Morgunútvarpið lítur svona út en nánar má lesa um forsendur þess á vef RÚV:

653.676 kr – Dísilolía
270.000 kr – Viðhald og viðgerðir
90.000 kr   – Hjólbarðar
160.000 kr – Tryggingar
26.000 kr   – Skattar og skoðun
13.000 kr   – Bílastæðakostnaður
36.000 kr   – Þrif og fleira
684.000 kr – Verðrýrnun
138.700 kr – Fjármagnskostnaður

Samtals: 2.071.376 krónur


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.