Erlent

Lík Hin­riks prins verður brennt

Atli Ísleifsson skrifar
Hinrik varð 83 ára gamall.
Hinrik varð 83 ára gamall. Vísir/AFP

Lík Hinriks prins verður brennt og verður sérstök útför gerð frá kirkju Kristjánsborgarhallar þann 20. febrúar næstkomandi. Helmingi öskunnar verður dreift í dönskum vötnum og hinn helmingurinn kominn fyrir í einkagarði konungsfjölskyldunnar við Fredensborgarhöll.



Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku konungshöllinni í morgun, að því er danskir fjölmiðlar greina frá. Ekki verður um opinbera útför að ræða, heldur verður hún fámenn með einungis nánustu fjölskyldu og vinum prinsins.



Hinrik prins andaðist í gærkvöldi, klukkan 23:18 að staðartíma í Fredensborgarhöll. Hann var umkringdur Margréti Þórhildi, drottningu og eiginkonu sinni, og sonunum Friðriki krónprins og Jóakim prins þegar hann lést.



Síðasta sumar greindi prinsinn frá því að hann vildi ekki hvíla við hlið eiginkonu  sinnar í dómkirkjunni í Hróarskeldu að þeim gengnum líkt og gert hafði verið ráð fyrir.



Sjá einnig: Minnast Hinriks prins: Prinsinn sem kom með ást og djörfung inn í líf drottningar

Í tilkynningunni frá konungshöllinni sem send var út síðasta sumar kom fram að prinsinn hefði þá greint drottningunni frá hugmyndum sínum fyrir nokkru og að hún væri þeim samþykk. Ákvörðun prinsins myndi þó ekki breyta áætlunum Margrétar Þórhildar um að verða jarðsett í dómkirkjunni í Hróarskeldu.



„Það hefur komið fram í fjölmiðlum að Prinsinn óski þess að verða jarðsettur í Frakklandi. Það er ekki rétt. Hann óskar þess enn að verða jarðsettur í Danmörku,“ sagði í tilkynningunni síðasta sumar.



Prinsinn var sagður hafa verið ósáttur við að í opinberu lífi hafi honum aldrei verið stillt upp samhliða drottningunni og ekki hlotið titilinn „hans konunglega hátign“ og hafi hann því ákveðið að það skuli ná fram yfir gröf og dauða.



Hinrik varð 83 ára gamall.


Tengdar fréttir

Hinrik prins látinn

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar er látinn, 83 ára að aldri. Hann andaðist í svefni átján mínútur yfir tólf í nótt að íslenskum tíma í höllinni í Fredensborg á Norður Sjálandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×