Innlent

Kynskipting á Facebook kann að orka tvímælis

Jakob Bjarnar skrifar
Alda Villiljós fékk útkomu sem ekki hentaði þegar það prófaði samkvæmisleikinn sem nú tröllríður Facebook. Steinunn Anna sálfræðingur segir Íslendinga delluþjóð.
Alda Villiljós fékk útkomu sem ekki hentaði þegar það prófaði samkvæmisleikinn sem nú tröllríður Facebook. Steinunn Anna sálfræðingur segir Íslendinga delluþjóð.
Flestir þekkja dellur eða æði sem koma og fara á samfélagsmiðlum. Sá samkvæmisleikur sem undanfarna daga hefur tröllriðið Facebook er smáforrit sem breytir kyni fólks, það er myndum af viðkomandi yfir í það hvernig viðkomandi gæti litið út sem einstaklingur af gagnstæðu kyni; kona eða karl eftir atvikum. Vitaskuld er þetta til gamans gert en þetta fyrir bæri leynir á sér; á því eru þó ýmsir athyglisverðir fletir og jafnvel varhugaverðir. Og jafnvel flóknir.

Gæti reynst niðrandi

Vísir ræddi við Steinunni Önnu Sigurjónsdóttir sálfræðing hjá Litlu kvíðameðferðastöðinni. Hún velti því fyrir sér hvort þetta gæti hreinlega virkað niðrandi og/eða neikvætt fyrir transfólk. Steinunn Anna vill tala varlega um þetta fyrirbæri af þeim ástæðum að afstaða úr þeim ranni liggur ekki fyrir. Hún segir að til dæmis sé til smáforrit sem breytir fólki í feitlagið og hún telur engum vafa undirorpið að það fyrirbæri megi heita niðrandi. Og þá sé það svo að þeir sem hafa farið í kynleiðréttingu tengi oft eðli máls samkvæmt neikvæðar minningar við fyrra kyn.

Meðal hinna fjölmörgu á Facebook sem skemmtu sér konunglega við að skipta um kyn á Facebook voru Sigurjón Kjartansson grínari með meiru. Hann fékk skeggjuðu konuna í andlitið, ef svo má segja.
Og svo eru þau sem líta svo á að þau hafi fæðst í röngum líkama og/eða vilja hvorki skilgreina sig sem karl né konu. Hvernig orkar þessi leikur þar sem hringlað er með kyn í gríni á það?

Tvíeggja sverð

Alda Villiljós skilgreinir sig sem hán, hvorki sem konu né karl. Hán er formaður Trans Ísland, Félag trans einstaklinga á Íslandi. Alda Villiljós þekkir þetta forrit en segist ekki almennilega vita hvaða afstöðu beri að taka til þess. Fyrirbærið geti verið tvíeggja sverð.

„Nei, ég hef ekki pælt neitt sérstaklega í því. Mér finnst þetta frekar flókið mál. Örugglega fyrir sumum virkar þetta neikvætt. En, fyrir transfólkið sem ekki hefur byrjað í kynjaleiðréttingaferli gæti þetta virkað jákvætt. Tvíeggja sverð.“

Alda Villiljós segir að enginn sé neyddur til að nota þetta en vissulega sé sá möguleiki fyrir hendi að setja myndir af öðru fólki þarna inn. Þá er vitaskuld einhvers konar nauðung í gangi.

Alda Villiljós hefur blendna afstöðu til þess leiks sem nú tröllríður Facebook, segir þetta flókið fyrir kynsegin fólk.
„Það gæti verið notað á þann hátt að fólk gæti sett myndir af transmanneskju og notað þannig,“ Alda Villiljós og telur að það kynni að reynast í vafasömum tilgangi.

Alda Villiljós fékk út torkennilega niðurstöðu

En, hefur þú sjálft notað þetta?

„Ég prófaði þetta aðeins um daginn en fékk kvenkynsútgáfu af mér sem var ekki það sem mig langaði í. Þetta getur verið flókið fyrir kynsegin fólk, flókið fyrir okkur sem viljum hvorki vera karl eða kvenkyns. Ég prófaði þetta aðeins en póstaði ekki. Virkaði ekki alveg. Ekki fyrir mig.“

Alda Villiljós segist vissulega sjá jákvæða fleti á þessu fyrirbæri. Fyrir fáeinum árum hefði annað eins og þetta orðið til þess að fólk hefði verið kallað öfuguggar, hommar; álitið eitthvað skrítið í kollinum fyrir að vilja bara prófa þetta. „Þetta er merki um þroskaðra samfélagsstig, að við séum að horfa á kyn á opnari hátt en áður. Það er ýmislegt í þessu.“

Gói Karlsson leikari og leikstjóri er einn af fjölmörgum úr heimi leiklistarinnar sem mátaði andlitið á sér inn í forritið.
Alda Villiljós segir sem sagt að afstaða sín sé blendin til þessa en hefur ekki rætt það sérstaklega við annað transfólk. Hugsanlega sé ástæða til þess.

Dellusamfélagið Ísland

Steinunn Anna segir leikinn og gífurlegar vinsældir hans varpa skýru ljósi á það hversu lítið Ísland er. Og nefnir sem dæmi að blaðamaður hafi vart þurft að nefna erindið, hún vissi nákvæmlega hvað var um að ræða. Það þekki allir þennan Facebookleik sem í sjálfu sér er athyglisvert. Sjálf hefur hún prófað þetta án þess þó að birta á sínum Facebookvegg.

„Við erum ofboðslega snögg að grípa eitthvað nýtt og sniðugt og allir vilja vera með.“

Þetta á sjálfsagt við almennt um mannskepnuna, að hún vilji tilheyra hópi, en þetta verður sérstaklega áberandi á Íslandi þar sem hin ýmsu fyrirbæri komast á augabragði í brennidepil sem ekki fer fram hjá nokkrum manni sem fylgist með.

Steinunn Anna sálfræðingur telur þetta ekki beinlínis narsisískt fyrirbæri, því ekki felist í þessu fegrun, ekki þannig.visir/anton brink
„Hjólreiðar, skarpagönguskór, kökumassi á afmæliskökur, maður sér þetta inná mæðratipps á Facebook, sérmerkt snuð, bjútítips, svartur andlitsmaski ... allt þetta gerist ótrúlega hratt á Íslandi. Allir vita af nýjasta æðinu og erum fljót að fá þá tilfinningu að við tilheyrum ekki hópnum séum við ekki með. Varðandi þessar sjálfur og að vilja sýna karlútgáfu af sjálfum sér (og öfugt) er ekki sú tilfinning, meira sýnir það hversu lítið samfélag þetta er.“

Fólk notar Facebook til að vera með á nótunum

Steinunn Anna segir að það sé varla hægt að hitta þá manneskju á Íslandi að ekki sé fyrirliggjandi sameiginlegur vinur á Facebook. Sem þýðir að ef eitthvað nær flugi á samfélagsmiðlinum tekur ekki nema einn til þrjá daga og þá eru allir búnir að sjá það.

Söngdívan Helga Möller vildi að sjálfsögðu kanna hvernig hún kæmi út í karlmannslíki og þessi var niðurstaðan. Kunnugleg að mati Helgu.
„Þetta virkar eins og fréttatímarnir gerðu. Þú getur mætt í og farið að tala um eitthvað við kaffiborðið, þó enginn þar sé með manni á Facebook, jafnvel að maður þekki engan og allir vita um hvað maður er að tala. Fólk notar Facebook til að vera með á nótunum.“

Fólk hefur gaman að því að fara í búninga

En, varðandi sálræna þætti á þessu sérstaklega þá segir Steinunn Anna, sem má heita sérfróð á þessu sviði, samspil samfélagsmiðla og sjálfsmyndar, að þetta sé ekki narsisískt (sjálfmiðað) í þeim skilningi að ekki er um fegrun að ræða. Það helsta sem taka má út úr þessu er hversu fljótt svona fyrirbæri dreifast um samfélagið. „Á núll einni.“

Þegar blaðamaður Vísis skannaði samfélagsmiðilinn komst hann ekki hjá því að taka eftir því að þetta var ekki síst vinsælt meðal leikara. Steinunn Anna segir erfitt að lesa eitthvað dýpra í það annað en að það fólk sé eðli máls samkvæmt vant því og starfi beinlínis við að bregða sér í ýmis hlutverk.

Helga Braga leikkona er helst á því að hún sem karlmaður sé eins og Steinn Ármann bekkjarbróðir hennar úr Leiklistarskólanum, samstarfsmaður og vinur.
„Fólk hefur gaman að grímuböllum, öskudeginum, halloween... einu sinni fóru allir í að birta myndir af sér sem börn. Þetta er eitthvað þannig.“

Hjarðhegðun sem getur tekið á sig neikvæðar myndir

Sálfræðingurinn segir að þó þetta lýsi fyrst og fremst hjarðhegðun; þeirri tilhneigingu að vilja tilheyra ákveðnum hópi og Íslendingar séu sérlega nýungagjarnir, forvitnir og vilji gjarnan prófa eitthvað nýtt, þá geti það reynst varhugavert, eins og áður hefur verið komið inná.

„Þetta er bara skemmtilegt að því gefnu að þetta særi engan og sé ekki niðrandi. Og þó það að vilja tilheyra ákveðnum hópi sé í sjálfu sér jákvætt geti það tekið á sig óskemmtilegri myndir.“

Breki er ekkert alltof hrifinn af þessum nýja leik sem furðu margir Íslendingar þekkja og hafa prófað.visir/vilhelm
Þar vísar Steinunn Anna meðal annars til þess að efnishyggja geti á öldum þess orðið nánast óviðráðanleg, að allir telji sig verða að eignast hitt og þetta eins og raunin varð á í aðdraganda efnahagshrunsins. Þegar heimilin voru skuldsett uppí rjáfur meðal annars vegna þess að allir töldu sig þurfa að eignast hluti eins og náunginn.

Smáa letrið

Og, til að slá enn á fögnuðinn, þá er smáa letrið ónefnt. Breki Karlsson er formaður Stofnunar um fjármálalæsi og hann vekur athygli á því, einmitt á Facebook að skemmtilegur „kynskiptimyndaleikur sem er í gangi á FB. En er ég einn um að finnast aðgöngumiðinn heldur dýr?“ spyr Breki.

Hann segir að meðal þess sem Kueez, sem á leikinn, áskilji sér rétt til að safna, nota og deila séu: „nafn, kyn, staðsetning þín, tölvupóstfang, heimilisfang, kontaktupplýsingar, myndirnar þínar, vinalisti, áhugamál, allskyns upplýsingar um tölvuna þína / símann þinn, vefsíður sem þú skoðarog hve lengi þú skoðar þær, fjölda smella, hvaða hópum þú tilheyrir, efni sem þú póstar ofl ofl..“

En, eins og Breki segir: „maður nennir aldrei að lesa skilmálana, er það nokkuð?“

Reynir Lyngdal kvikmyndaleikstjóri reyndi og reyndi en forritið hélt sig alveg við það að hann væri sannkallað barn unisex kynslóðarinnar.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×