Enski boltinn

Fýlan gerði Mahrez að betri leikmanni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. vísir/getty
Riyad Mahrez er betri leikmaður eftir útlegðina sem hann fór í eftir félagsskiptagluggann að mati knattspyrnustjóra Leicester, Claude Puel.

Mahrez mætti ekki á æfingar undir lok janúarmánaðar til þess að reyna að neyða í gegn sölu sína til Manchester City. Eftir að ekkert varð úr sölunni snéri hann ekki aftur heldur hélt áfram í sjálfskipaðri útlegð.

Hann snéri til baka á æfingu undir lok síðustu viku og kom inn sem varamaður í leik Leicester gegn City á laugardaginn.

Puel hefur áður sagt að hugur Mahrez sé allur hjá Leicester og að hann sé tilbúinn til þess að leggja sig allan fram fyrir félagið.

„Ég held hann sé betri [en hann var áður]. Hann hefur gaman af því að spila og æfa með liðsfélögum sínum, er á góðum stað án allra vandamála,“ sagði Puel.

„Við þurfum að hætta að tala um Riyad. Hann er kominn til baka, hann spilaði gegn City og við þurfum að halda áfram og skilja þetta mál eftir.“

Næsti leikur Leicester er bikarleikur gegn Sheffield United á morgun. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsending klukkan 19:35.


Tengdar fréttir

Riyad Mahrez hættur í fýlu og mætir á æfingu í dag

Riyad Mahrez hefur ekki æft né spilað með Leicester síðan að félagið neitaði að selja hann til Manchester City á síðustu dögum félagsskiptagluggans. Alsíringurinn ætlar hinsvegar að mæta í vinnuna í dag.

Mahrez bað Leicester um sölu

Riyad Mahrez hefur beðið Leicester formlega um sölu frá félaginu samkvæmt heimildum fjölmiðla í Englandi.

Man. City ætlar ekki að gleyma Mahrez

Það gekk ekki hjá Man. City að kaupa Riyad Mahrez af Leicester í gær en félagið mun líklega gera aðra atlögu að leikmanninum næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×