Körfubolti

Sláturhúsið stendur ekki undir nafni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar hafa verið slakir upp á síðkastið.
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar hafa verið slakir upp á síðkastið. Vísir/Anton
Sú var tíðin að liðum þótti erfitt að spila við karlalið Keflavíkur í körfubolta á þeirra heimavelli. Það er ástæða fyrir því að íþróttahúsið á Sunnubraut 34 fékk viðurnefnið Sláturhúsið. Þar fengu gestaliðin að finna til tevatnsins. En ekki lengur.

Keflavík hefur tapað síðustu sjö heimaleikjum sínum; sex í Domino's deildinni og einum í Maltbikarnum. Keflvíkingar hafa aðeins unnið þrjá af níu heimaleikjum sínum í Domino's deildinni.

Aðeins botnliðin tvö, Þór Ak. og Höttur, hafa unnið færri heimaleiki en Keflavík í vetur. Keflvíkingar hafa hins vegar verið fínir á útivelli í vetur og unnið fimm af níu útileikjum sínum.

Vörnin hefur verið aðal vandamál Keflavíkur í heimaleikjum vetrarins. Ekkert lið hefur fengið á sig fleiri stig að meðaltali í heimaleikjum sínum en Keflvíkingar, eða 90,2 stig. Í tapleikjunum sjö fékk Keflavík fimm sinnum á sig 90 stig eða meira.

Sóknarleikurinn hefur verið flottur en aðeins Haukar og Tindastóll skora meira að meðaltali á heimavelli en Keflavík.

Keflvíkingar hafa verið afar seinheppnir með bandaríska leikmenn í vetur og hafa haft alls fimm slíka. Kevin Young kom fyrstur en var sendur heim áður en hann náði að spila leik í bláu treyjunni. Cameron Forte kom næstur. Hann entist í sex leiki áður en honum var skipt út fyrir Stanley Robinson.

Ferilskrá þess ágæta leikmanns er flott en hann gerði lítið fyrir Keflavík og var ekki í neinu formi. Hann var því látinn taka hatt sinn og staf.

Dominique Elliott kom til Keflavíkur um áramótin og skömmu síðar bættist Christian Jones í hópinn. Þeir skipta með sér mínútunum hjá Keflavík og hafa gert ágætlega. Þeir eru engir Amin Stevens en brúkhæfir leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×