Innlent

Fréttablaðið opnar vefmiðil

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Blaðamaður vinnur nýja frétt á frettabladid.is.
Blaðamaður vinnur nýja frétt á frettabladid.is. Vísir/Stefán
Fréttablaðið hefur opnað nýjan fréttamiðil, fretta­bladid.is. Er það lifandi fjölmiðill og glæný viðbót við íslenska fjölmiðlaflóru. Allar fréttir blaðsins birtast á vefnum á morgnana og blaðamenn standa vaktina á vefnum frá morgni til kvölds.

Fréttablaðið er mest lesna dagblað landsins þar sem lögð er áhersla á áreiðanlegan og vandaðan fréttaflutning og lýtur vefmiðillinn sömu ritstjórnarreglum og markmiðum.

„Við erum himinlifandi með þessa nýju viðbót. Frábært teymi hönnuða, forritara og blaðamanna hefur í sameiningu unnið að uppsetningu og hönnun vefsins. Fréttablaðið.is er afar vandaður og aðgengilegur fjölmiðill og við hlökkum mjög til framhaldsins,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, og bendir á að margt sé fram undan.

„Minningargreinar hafa hingað til ekki verið nægilega aðgengilegar lesendum. Við munum því bjóða fólki að senda greinar inn á vefinn, án endurgjalds. Einnig höfum við opnað nýjan fasteignavef; fasteignir.frettabladid.is. Þetta er aðeins hluti nýjunga sem boðið verður upp á.“

Fréttablaðið.is er skipað öflugri og sjálfstæðri ritstjórn. Sunna Karen Sigurþórsdóttir er ritstjóri vefsins. Hún er ánægð með hvernig til hefur tekist. „Ritstjórnin er virkilega öflug og skipuð afar vönduðum blaðamönnum. Við hlökkum öll til komandi tíma,“ segir Sunna.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra opnar vefinn formlega klukkan 11.30 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×