Skoðun

Skrópað í beinni útsendingu

Teitur Atlason skrifar
Hún var svolítið sérkennileg tillagan hennar Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að sjónvarpa ætti öllu sem fer fram í nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar. Ástæðan mun vera að Mörtu, sem borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, blöskrar meint ógagnsæi borgarkerfisins. Þetta er gott og blessað. Ég held reyndar (en þetta er bara mín tilfinning) að gagnsæiskrafa Mörtu eigi sér rót í almennri andúð Sjálfstæðismanna á „bákninu“ og útvörpun á fundum sé til þess gerð að hneyksla borgarbúa með því að varpa ljósi á „báknið“ og þær meinsemdir sem það nærir.

Þetta er reyndar stef inni í hægrinu þar sem „báknið“ er vont og meira og minna öll spekin að baki hægri pólitík vinnur að niðurrifi þess og sundurhlutun. Íslenska afbrigðið er svo að láta einhvern úr stuðningsklúbbi Sjálfstæðisflokksins fá hlutverkið sem rifið var af, sér til vegsemdarauka. Þetta er almannarómur og óþarfi að tíunda frekar.

Útvörpun eða sjónvörpun frá nefndum og ráðum Reykjavíkur er ekkert galin hugmynd. Núverandi kerfi er hefðbundið form þar sem efni fundanna er ritað niður eftir ákveðnum reglum og svo kvitta fundarmenn undir að rétt sé farið með. Vissulega má segja að þetta sé „gamaldags“ en ég held að þetta kerfi sé ekki ógegnsætt. Það er auðvelt að fletta upp fundargerðum og sjá um hvað var talað. Gamaldags? Já. En það er ekkert alltaf samhengi milli þess gamla og þess lélega. Heilinn í Kára Stefánssyni er sennilega ágætis dæmi um þá fullyrðingu.

Gefum okkur samt að tillaga Mörtu Guðjónsdóttur um útvörpun funda á vegum Reykjavíkurborgar hafi gilt í vetur og sé bara hin eðlilegasta. Þá hefðu borgarbúar upplifað í beinni útsendingu afar meinlega uppákomu á fundi Hverfisráðs Vesturbæjar, en ég á einmitt sæti í því ágæta ráði. Þá hefðu borgarbúar séð að mánaðarlegur fundur ráðsins í desember varð ógildur vegna þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu ekki sjá sig. Hvorki aðalmaðurinn Marta Guðjónsdóttir né varamaðurinn Börkur Gunnarsson mættu. Þau skrópuðu. Sjálfsagt vegna þess að „báknið“ er svo þrúgandi. „Báknið“ borgar þeim reyndar laun fyrir að mæta á þennan mánaðarlega fund, en höldum því utan við að sinni.

Í ljósi þessa tek ég heilshugar undir hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um útvörpun á öllum fundum hjá öllum ráðum og nefndum á vegum Reykjavíkurborgar. Verði raunin sú er ég handviss um að inntak málflutnings borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins verði öllum borgarbúum ljóst. Það er tiltölulega einfalt. Þau eru á móti öllu sem meirihlutinn hefur fram að færa – jafnvel þó að þau séu í hjarta sínu sammála þeim. Þetta var inntakið hjá Davíð Oddssyni þegar hann ríkti yfir borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins illu heilli. Ekkert frumlegt og ekkert geðfellt en afar ómerkilegt.

Höfundur er fulltrúi Samfylkingarinnar í Hverfisráði Vesturbæjar




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×