Skoðun

Farveita og vatnsveita

Sigurður Oddsson skrifar
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, kemst oft skemmtilega að orði, eins og t.d. að ekkert vit sé í að byggja mislæg gatnamót. Þau fyllist bara af bílum.

Í Fbl. 1. febrúar ber Hjálmar saman vatnsveitu Reykjavíkur og gatnakerfið, sem hann kallar farveitu. Í stuttu máli líkir hann ákvörðun um Borgarlínu við ákvörðun um byggingu vatnsveitu Reykjavíkur fyrir 110 árum.

Hjálmar tekur fram, að einhverjum kunni að finnast langsótt, að einkabíllinn sé eins og að bera vatn í fötum frá brunni inn í hús og Borgarlínan aftur á móti álíka framför og vatnsveitan var fyrir 110 árum.

Samanburðurinn er kannski ekki svo langsóttur verði haldið áfram að þrengja að og tefja bílaumferð, sem stíflast næstum alveg löngu áður en Borgarlínan kemur og svo alveg með Borgarlínunni. Þá munu margir nauðugir taka sér far með henni þrátt fyrir mikila tímasóun í ferðir til og frá stoppistöðvum Borgarlínu. Ekki að furða að í uppsiglingu sé nýr skattur til uppbyggingar innviða. Skattur sem sérstaklega mun leggjast á þá, sem verða svo ólánsamir að búa nálægt Borgarlínunni.

Sem betur fer voru þeir sem stjórnuðu bæjarmálum fyrir 110 árum ekki á sama plani og heimspekingurinn Hjálmar Sveinsson í dag, því þá hefðu þeir sagt: Það þýðir ekkert að leggja vatnsrör. Þau fyllast bara af vatni!

Höfundur er verkfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×