Golf

Valdís Þóra: Ég fann ekki fyrir stressi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Vísir/Getty
Valdís Þóra Jónsdóttir stendur vel að vígi eftir góða spilamennsku á LPGA-móti í Ástralíu sem hófst í gærkvöldi. Valdís spilaði á pari vallarins og er á meðal 50 efstu keppenda.

„Hringurinn var nokkuð góður fyrir utan sautjándu holuna þar sem ég fór í tjörn. Ég fékk víti þar,“ sagði Valdís Þóra eftir hringinn í morgun. „Ég missti líka nokkur pútt en heilt yfir var ég að slá vel og kom mér í helling af færum.“

Valdís Þóra er að keppa á sínu öðru LPGA-móti en hún tók einnig þátt á Opna bandaríska meistaramótinu á síðasta ári. Valdís Þóra vann sér þátttökurétt á þessu móti með því að vinna forkeppni.

„Þetta er gott tækifæri fyrir mig og gaman að vera hér. Ég ekki ekki fyrir miklu stressi, ekki miðað við hvernig ég var á opna bandaríska í fyrra. Ég bý að þeirri reynslu í dag.“

Valdís er sem stendur í 46. sæti á mótinu og stefnir á að vera á meðal 70 efstu sem komast í gegnum niðurskurðinn. „Ég vil spila mitt golf áfram. Ég er að gera góða hluti og ég vil hafa gaman að þessu,“ sagði hún.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er einnig að keppa á sama móti en þetta er í fyrsta sinn sem þær keppa á sama móti á LPGA-mótaröðinni. Ólafía spilaði á tveimur yfir pari og er í 75. sæti eftir fyrsta hring.

„Ég hitti hana í gær og við vorum ánægðar að sjá hverja aðra. Við veitum hvorri annarri stuðning og viljum að hinni gangi vel.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×