Handbolti

Stefán Rafn: Frábært fyrir landsliðið að fá heimsklassa þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stefán Rafn í leik með Pick Szeged.
Stefán Rafn í leik með Pick Szeged. vísir/getty
Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður ungverska stórliðsins Pick Szeged, fagnar því gríðarlega að fá Guðmund Guðmundsson aftur sem landsliðsþjálfara Íslands í handbolta.

Guðmundur tók við íslenska liðinu af Geir Sveinssyni sem fór á tvö stórmót með strákana okkar; HM 2017 og EM 2018, en Stefán Rafn var ekki í íslenska hópnum á hvorugu mótinu.

„Þetta er frábært. Það er ótrúlega gott fyrir landsliðið að vera komið með svona heimsklassa þjálfara. Það er frábært fyrir þjóðina og landsliðið að vera komið með Guðmund aftur. Hann hefur sýnt það margoft að hann er einn besti þjálfari heims. Ég held að allir ættu að vera voðalega glaðir yfir þessu,“ segir Stefán Rafn í viðtali við Akraborgina.

Stefán Rafn var ekki kominn í landsliðið þegar að Guðmundur stýrði því síðast en hann kynntist þjálfaranum og vinnubrögðum hans hjá Rhein-Neckar Löwen.

„Hann er í fremstu röð eins og bara þegar kemur að því að setja upp leiki. Ég hef alltaf sagt það. Ég fékk að vera hjá honum í Löwen í smá tíma og þar sá maður hvernig hann vinnur. Fyrir þjóðina og landsliðið í þessari uppbyggingu sem það er í núna er frábært að fá hann,“ segir Stefán Rafn Sigurmannsson.

Allt viðtalið við Stefán Rafn má heyra hér að neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×