Innlent

Vig­dís segir að Margrét Þór­hildur hafi verið vel gift

Heimir Már Pétursson skrifar
Vigdís Finnbogadóttir er sennilega sá Íslendingur sem þekkti Hinrik best enda átti hún í töluverðum samskiptum við hann bæði meðan hún sat á forsetastóli og eftir það.
Vigdís Finnbogadóttir er sennilega sá Íslendingur sem þekkti Hinrik best enda átti hún í töluverðum samskiptum við hann bæði meðan hún sat á forsetastóli og eftir það. Vísir/Ernir/AFP

Kista Hinriks prins var flutt með viðhöfn frá Fredensborgarhöll í Amalienborgarhöll í Kaupmannahöfn í morgun. Drottningin og synir hennar ásamt barnabörnum fylgdu líkbílnum eftir og mannfjöldi fylgdist með á götum úti. Vigdís Finnbogadóttir segir að drottningin hafi verið mjög vel gift.

Klukkan átta í morgun var skotið úr fallbyssum á tveimur stöðum í Danmörku í fjörutíu mínútur til heiðurs Hinriki prins sem lést í fyrrakvöld 83 ára gamall. Klukkan níu að íslenskum tíma var síðan lagt af stað með kistu prinsins frá Fredensborgarhöll, þar sem hann lést, til Amalienborgarhallar í miðborg Kaupmannahafnar.

Drottningin og synir hennar fylgdu á eftir í þremur viðhafnarbílum konungsfjölskyldunnar ásamt barnabörnum drottningar. Fjöldi manns fylgdist með á götum úti. Einn viðmælenda danska sjónvarpsins sagðist vilja sýna Hinriki þakklæti fyrir störf hans í þágu Danmerkur og þóttt prinsinn hafi ef til vill ekki vitað það sjálfur þá hafi hann verið konungur fólksins.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er sennilega sá Íslendingur sem þekkti Hinrik best enda átti hún í töluverðum samskiptum við hann bæði meðan hún sat á forsetastóli og eftir það. Þau unnu meðal annars saman að alþjóðlegu átaki Norðurlandanna sem kallað var Skandinavia Today sem ætlað var að kynna menningu Norðurlandanna fyrir umheiminum.

„Hann var mjög fróður maður og kunni vel á heimssöguna. Hann var jú alinn upp í Víetnam, Indókína sem var, þar sem Frakkar höfðu ítök. Hann var heimsmaður, það sem kallað er cosmopolite, heimsmaður,“ segir Vigdís. Henni þyki leiðinlegt að hnýtt hafi verið í Hinrik fyrir franskan hreim hans á dönskunni því hann hafi verið mikill tungumálamaður.

Miklar hefðir fylgja konungsfjölskyldunni á opinberum vettvangi en mörgum þótti Hinrik oft brjóta þær hefðir, eins og hann gerði reyndar allt fram yfir gröf og dauða með því vilja ekki verða lagður til hvílu í dómkirkjunni í Hróarskeldu þar sem drottningin mun hvíla þegar þar að kemur.

Náðir þú að kynnast hinum óformlega Hinrik?

„Já, já. Hann var bara venjulegur maður eins og þú og ég. Þegar hann var með svona, sem á dönskunni er kallað „meni mannen“, þá var hann bara venjulegur maður sjálfur og þau bæði. Margrét drottning er líka mjög skemmtileg þegar maður er einn með henni og mér fannst hún vera mjög vel gift,“ segir Vigdís Finnbogadóttir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×