Erlent

Forsætisráðherra Eþíópíu segir óvænt af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Hailemariam Desalegn.
Hailemariam Desalegn. Vísir/AFP
Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu, hefur óvænt sagt af sér embætti. Hailemariam hefur stýrt landinu frá árinu 2012.

Forsætisráðherrann sagði í sjónvarpsávarpi að afsögnin væri nauðsynleg til að hægt yrði að hrinda umbótatillögum sem myndu leiða til friðar og aukis lýðræðis í framkvæmd.

Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu vikurnar, sér í lagi í stærstu héruðum landsins, Oromia and Amhara. BBC greinir frá því að tíu manns hafi látið lífið og tugir særst í nýlegum mótmælaaðgerðum stjórnarandstöðunnar í landinu. Stjórnin ákvað nýlega að sleppa þúsundum stjórnarandstæðinga úr haldi, en það hafi hins vegar ekki hafa skilað tilætluðum árangri og lægt öldurnar.

Stjórnarandstæðingar hafa krafist pólitískra og efnahagslegra umbóta í landinu, auk þess að tekið verði á víðtækri spillingu í landinu.

Hailemariam hefur sagt að hann muni áfram starfa sem forsætisráðherra þar til að þingið og stjórnarflokkarnir hafi fundið annan mann til að taka við stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×