Lífið

Survivor-sigurvegari í vímu sakaður um að hafa bitið lögreglumann

Atli Ísleifsson skrifar
Survivor-þátttakendurnir Rob Cesternino, Heidi Strobel, Tom Buchanon og Jenna Morasca.
Survivor-þátttakendurnir Rob Cesternino, Heidi Strobel, Tom Buchanon og Jenna Morasca. Vísir/AFP
Survivor-sigurvegarinn Jenna Morasca var handtekinn í lok janúar eftir að hún beit lögreglumann skömmu eftir að hafa komist til meðvitundar í kjölfar fíkniefnaneyslu.

Lögregla þurfti að hafa afskipti af Morasca, sem vann eina milljón Bandaríkjadala í Survivor: The Amazon árið 2003, þar sem hún var í jeppa sínum, sem kveikt var á, í borginni Washington í Pennsylvaníu.

TMZ  greinir frá því að lögregla hafi verið kölluð á vettvang og séð Morasca koma sprautum fyrir í glærum plastpoka og setja í handtösku sína.

Lögregla komst fljótt að því að hún var undir áhrifum fíkniefna. Henni var gefið Naloxone til að draga úr áhrifum vímunnar og var henni svo komið fyrir á sjúkrabörum og hún færð inn í sjúkrabíl.

Í skýrslu lögreglu segir að Morasca hafi reynt að bíta sjúkraflutningamennina í sjúkrabílnum á leiðinni á sjúkrahús. Henni hafi svo tekist að bíta lögreglumann í framhandlegginn eftir að sá hafi komið inn í sjúkrabílinn.

Morasca verður ákærð fyrir fíkniefnaakstur, vörslu fíkniefna og fyrir að ráðast á lögreglumann.

Morasca var einnig þátttakandi í Survivor: All Stars, auk þess að hafa tekið þátt í þáttunum The Amazing Race.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×