Enski boltinn

Segir Barca, Real og Bayern öll hræðast Man. City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin De Bruyne og Agüero.
Kevin De Bruyne og Agüero. vísir/getty
Paul Merson, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, segir að ensku liðin séu orðin þau sterkustu í Evrópuboltanum og afrek þeirra í Meistaradeildinni ætti ekki að tala niður.

Manchester City, Liverpool og Tottenham spiluðu öll frábærlega í Meistaradeildinni í vikunni og eru í bílstjórasætinu í sínum einvígum. City og Liverpool rústuðu sínum andstæðingum en Tottenham kom til baka gegn Juventus.

„Það sem Tottenham gerði var ótrúlegt. Við erum ekki nógu dugleg að hrósa þegar það á við. Oft tölum við um heppni eða að mótherjinn hafi átt slæman dag,“ sagði Merson í þættinum The Debate á Sky Sports.

„Liðin okkar spiluðu á þeim hraða sem við þekkjum úr úrvalsdeildinni og hin liðin áttu ekki séns í okkur,“ sagði Merson og talaði sérstaklega um Manchester City sem er líklegt til afreka í öllum keppnum.

„Ég tel að Barcelona, Real Madrid og Bayern München séu öll hrædd við Manchester City. Sigur þess á Basel var svo flottur. City-liðið er orðið þannig að maður býst við því að það rústi öllum,“ sagði Paul Merson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×