Enski boltinn

Guðni Bergs um Gylfa: Mjög nálægt því að vera hinn fullkomni leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um síðustu helgi.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um síðustu helgi. Vísir/Getty
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var í viðtali á heimasíðu Everton þar sem aðalumræðuefnið var íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson sem spilar með Everton liðinu.

Gylfi skoraði gott mark í sigri á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og lagði einnig upp þriðja mark liðsins.

„Ég hef mikla trú á Gylfa,“ sagði Guðni við evertonfc.com. „Hann er með rétta hugarfarið og vilja til að vinna. Hann hefur svo mikil gæði, er vinnusamður, hleypur meira en allir í ensku úrvalsdeildinni og gefur alltaf hundrað prósent í leikina,“ sagði Guðni.





„Sköpunargleðin og geta hans með boltann eru hans stærstu kostir. Hann vinnur vel á litlu svæði, er útsjónarsamur með sendingarnar sínar og er síðan með frábærar sendingar úr föstum leikatriðum,“ sagði Guðni. Hann hrósaði Gylfa einnig fyrir skotin og varnarvinnuna.

„Hann er mjög nálægt því að vera fullkominn leikmaður. Hann er frábær tía og mjög, mjög góður miðjumaður,“ sagði Guðni.

„Ég er hrifnastur að sjá hann inn á miðjum vellinum en ég vel hann muni spila hvar sem er fyrir stjórann sinn ef það hjálpar liðinu,“ sagði Guðni.





Guðni sjálfur spilaði í mörg ár í ensku úrvalsdeildinni og þar á meðal fyrir Sam Allardyce, núverandi knattspyrnustjóra Everton.

„Sam leggur alltaf áherslu á að verjast sem eitt lið alveg eins og við gerum í íslenska landsliðinu. Hann hefur síðan Gylfa og aðra leikmenn til að búa eitthvað til á síðasta þriðjungnum,“ sagði Guðni.

„Það er best ef það eru að koma hlaup í kringum Gylfa því hann mun koma boltanum til þeirra. Ég er viss um að við sjáum mikið af því hjá Everton á næstunni,“ sagði Guðni.





Guðni heldur áfram að tala um Gylfa og þá sérstaklega um vinsældir hans heima fyrir.

„Hann er rosalega vinsæll á Íslandi og hefur gott orðspor. Við dáumst af því hvernig hann hefur farið að því að byggja upp sinn feril. Þegar hann var ungur var kannski ekki búist við að hann gæti orðið þessi leikmaður sem hann er í dag,“ sagði Guðni.

„Hann náði þessum árangri með vinnusemi og tileinkun. Hann hugsar svo vel um sig, drekkur ekki og er mjög einbeittur,“ sagði Guðni um besta fótboltamann Íslands.

„Gylfi er frábær fyrirmynd fyrir krakkana á Íslandi. Við erum svo ánægð með landsliðið okkar og svo stolt af þeim,“ sagði Guðni en það má finna allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×