Erlent

Starfsmenn Apple ganga ítrekað á glerveggi í höfuðstöðvum fyrirtækisins

Birgir Olgeirsson skrifar
Höfuðstöðvar Apple í Cupertino.
Höfuðstöðvar Apple í Cupertino. YouTube
Nýjar höfuðstöðvar tæknirisans Apple í Cupertino-borg í Kaliforníu hafa valdið starfsmönnum nokkrum vandræðum.

Um er að ræða mikið glerhýsi þar sem nánast allar veggir eru úr gleri. Það hefur orðið þess valdandi að starfsmennirnir hafa ítrekað gengið á glerveggina. Greint er frá þessu á vef Bloomberg en þar er ástæðan sögð sú að starfsmennirnir séu svo niðursokknir í iPhone-símana að þeir taki ekki eftir gegnsæjum glerveggjunum og gangi beint á þá.

Um er að ræða fagurhannaða byggingu sem er sögð undur í arkitektabransanum.

Steve Jobs, stofnandi Apple, kynnti byggingaráformin fyrir borgarráði Cupertino-borgar í Kaliforníu nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn árið 2011. Jobs lét hafa eftir sér árið 2011 að útlit byggingarinnar minnti á geimskip úr vísindaskáldsögu og því hefur byggingin hlotið viðurnefnið „Geimskipið“.

Arkitekt hennar heitir Norman Foster en hann fór eftir þeirri sýn sem Steve Jobs hafði teiknað upp fyrir hann. Útlitið skipti miklu máli en þegar frágangi var nánast lokið var ákveðið að fjarlægja viðvörunarmerkingar af glerveggjunum því arkitektarnir töldu þær skemma útlitið.

Bloomberg segir frá því að starfsmennirnir hafi margir hverjir tekið upp á því að setja gula límmiða á glerveggina svo starfsmennirnir átti sig frekar á þeim.

Höfuðstöðvarnar í Cupertino hýsa um 13.000 starfsmenn en í frétt Bloomberg af málinu er greint frá því að talskona fyrirtækisins neitaði að tjá sig og því liggur ekki fyrir hve margir hafa slasað sig á því að ganga á glervegg.

Hér fyrir neðan má sjá drónamyndband af höfuðstöðvunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×