Innlent

Hvetja Alþingi til að samþykkja umskurðarfrumvarp

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar.
Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar. Vísir/Stefán
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur Alþingi til að samþykkja frumvarp sem bannar umskurð drengja.

Þetta kemur fram í umsögn Siðmenntar um frumvarpið. Þar segir að umræða um umskurð blossi upp öðru hvoru og er farið yfir að árið 2005 hafi Alþingi samþykkt bann við umskurði kvenna.

„Í öllum umsögnum sem bárust var einróma tekið undir með innihaldi frumvarpsins. Orðanotkun svo sem limlesting, líkamsmeiðing, ofbeldi og önnur sterk lýsingarorð voru notuð til að rökstyðja stuðning við bannið árið 2005. Almenn sátt virtist ríkja um það á sínum tíma,“ segir í rökstuðningi félagsins.

Þar segir að nú þegar komi til umræðu bann við umskurði drengja heyrist raddir um að sýna siðvenjum og trú það umburðarlyndi að banna ekki umskurð drengja, en að Siðmennt hafi skýra sýn á málið.

„Þar sem um er að ræða alvarlegt og óafturkræft inngrip er óásættanlegt að börn undir lögaldri séu umskorin.“

Réttur barns siðum og trú yfirsterkari

Þá tekur félagið undir skoðun flutningsmanna frumvarpsins um að umskurður á ungum drengja sé brot á réttindum þeirra, nema aðgerðin sé talin nauðsynleg af heilsufarsástæðum. Þá ættu lögráða einstaklingar að geta óskað eftir umskurði eftir upplýsta skoðun og ákvörðun þar um.

„Rétt er að minna á að þó að ýmsar siðvenjur eða hefðir hafi verið stundaðar í árhundruð eða þúsundir ára þá er það engin réttlæting að þær eigi að standa óhreyfðar um alla tíð,“ segir jafnframt í rökstuðningnum.

„Umburðarlyndi gagnvart siðvenjum og trúarbrögðum er góðra gjalda vert. En þegar kemur að slíku inngripi á líkama ungra drengja er það skýrt að réttur barnsins skal vera siðum og trú yfirsterkari.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×