Innlent

Óþekktur sonur til Íslands hálfri öld síðar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þær voru hlýjar móttökurnar sem Mitch fékk í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þær voru hlýjar móttökurnar sem Mitch fékk í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
„Þetta hefur verið súrrealískt,“ segir Bandaríkjamaðurinn Mitch Koster. Mitch hefur síðustu daga dvalið í faðmi íslenskrar fjölskyldu sinnar en hann uppgötvaði síðasta haust að faðir hans væri íslenskur.

Mitch, sem verður fimmtugur í maí, var gefinn til ættleiðingar við fæðingu. Til að hafa upp á blóðfjölskyldu sinni fór hann í erfðarannsókn. Sú könnun leiddi hann að dóttur móðursystur sinnar og í gegnum hana fann hann móður sína. Sú sagði honum að faðir hans hefði borið nafnið Björn Antonsson.

„Leit að honum reyndist í fyrstu smá bras því nafnið er nokkuð algengt í Skandinavíu,“ segir Mitch. Það var því lán þegar íslenskur ættingi hans í Texas, Hermann Kristinsson, hafði samband við hann eftir að Hermann komst að því að þeir væru fimmmenningar. Téður Hermann gat flett Birni, föður Mitch, upp í Íslendingabók og í kjölfarið fundu þeir hann á Facebook.

„Hermann hafði samband við mig, kom mér í samband við Mitch og síðan fórum við í DNA-próf. Niðurstöður úr því bárust síðasta haust. Það voru 99,9 prósent líkur á að við værum feðgar,“ segir Björn og hlær. Björn hafði kynnst móður Mitch þegar hann var við nám í flugvirkjun í Tulsa í Oklahoma. Þegar hann fór þaðan hafði hann ekki hugmynd um að hún væri þunguð.

Hákarl og sviðaveisla biðu eftir honum

Eftir þetta kom ekkert annað til greina en að Mitch kæmi í heimsókn til Íslands. „Við fjölskyldan sóttum hann út á flugvöllinn, gáfum honum morgunmat og höfum síðan verið að skoða borgina. Hann er búinn að smakka hákarl og á föstudaginn var sviðaveisla og þar át hann augun alveg eins og pabbi hans!“ segir Björn. „Það er ekki hið eina sem er líkt með okkur því húmorinn er svipaður og ýmsir taktar leyna sér ekki.“

„Hann varð eiginlega fyrir nokkrum vonbrigðum með viðbrögð mín þar sem hann bjóst við því að ég myndi spýta þessu út úr mér,“ segir Mitch og hlær. Hann segir Ísland vera stórkostlegt og vonar að Íslendingar séu ekki orðnir ónæmir fyrir fegurð þess. Þá hefur hann kynnst því hve lítið Ísland er.

„Svo eru allir svo vinalegir. Ég lenti í því á bílastæði við verslun að nafn mitt var kallað. Ég var eitt stórt spurningarmerki enda skildi ég ekki hver gæti þekkt mig hér á landi. Þá reyndist þetta vera góð vinkona systur minnar,“ segir Mitch og skellir upp úr.

Íslandsdvöl Mitch rennur sitt skeið á fimmtudag en þangað til mun hann skoða sig um og njóta í faðmi fjölskyldunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×