Enski boltinn

Guardiola var ekki nógu góður fyrir Wigan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/getty
Pep Guardiola er eitt stærsta nafnið í fótboltaheiminum í dag enda hefur hann slegið í gegn sem knattspyrnustjóri Barcelona, Bayern Munchen og Manchester City undanfarinn áratug.

Guardiola átti einnig farsælan leikmannaferil hjá Barcelona auk þess að leika fyrir spænska landsliðið um árabil.

Hann lauk leikmannaferlinum með því að leika tvö tímabil í Katar og eitt tímabil í Mexíkó en hann var nálægt því að ganga til liðs við þáverandi nýliða í ensku úrvalsdeildinni, Wigan Athletic, sumarið 2005. Guardiola var spurður út í þessa skemmtilegu staðreynd á blaðamannafundi í tengslum við leik Man City og Wigan í enska bikarnum í kvöld.

,,Fyrir nokkrum árum síðan já. Ég var ekki nógu góður fyrir þá, það er sannleikurinn. Ég var gamall, mjög gamall," sagði Pep, léttur í bragði. 

Í staðinn samdi Guardiola við Dorados í Mexíkó og Wigan náði sínum besta árangri í efstu deild frá upphafi. Síðan þá hefur frægðarsól Wigan hnignað og leikur liðið nú í C-deildinni en fær að reyna sig við besta lið Englands um þessar mundir í kvöld.

Leikur Wigan og Man City hefst klukkan 19:55 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×