Innlent

Flughált víða á landinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Akstursskilyrði eru víða varasöm í dag.
Akstursskilyrði eru víða varasöm í dag. Vísir/GVA
Vegagerðin varar við því að víða á landinu kann að vera töluverð hálka og jafnvel flughálka á köflum.

Það hefur mikið tekið upp á Suður- og Suðvesturlandi og vegir víðast hvar ýmist auðir eða aðeins í hálkublettum að sögn Vegagerðinnar. Hins vegar er flughált á Kjósarskarði og Krýsuvíkurvegi en þó er verið að opna upp í Bláfjöll.

Svipaða sögu er að segja af Vesturlandi. Þar er einnig flughált á nokkrum köflum, meðal annars á Fróðárheiði og Laxárdalsheiði. Verið er að moka fjallvegi á Vestfjörðum þessa stundina en þar er á köflum krap og mikil hálka.

Á Norðurlandi er fremur lítil hálka á aðalleiðum en þó flughált á kafla á Þverárfjallsvegi og eins á Hólaheiði.

Þá er víðast hvar hált á Austurlandi, raunar flughált allvíða og sums staðar er hvasst. Á Vatnsskarði eystra hafa hviður til að mynda farið í 50 m/sek. Með suðausturströndinni er mikið autt.

Einnig ber að hafa í huga að ófært er innst á Hvítársíðuvegi (523) við brúna yfir Norðlingafljót þar sem vatn flæðir yfir veg og að Þingskálavegur (268) er ófær vegna vatnaskemmda ofan við bæinn Hóla.


Tengdar fréttir

Næsti hvellur á miðvikudag

Samkvæmt nýjustu spákortum Veðurstofunnar virðist næsta lægð ganga yfir landið á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×